BM77 á Möltu
Þrír fulltrúar LÍS fóru á dögunum á þingfund Evrópsku stúdenta samtakanna, það er European Student Union Board Meeting, eða ESU BM77 á Möltu. Af viku langri ferð fóru fyrsti og síðasti dagurinn í ferðalag til og frá fundarstaðnum, þess á milli tveir dagar í fræðslu og þrír í sameiginlegan þingfund.
Viðburðurinn átti sér stað í skugga mikillar ólgu í maltnesku samfélagi en sú ólga hafði áhrif á störf þingsins. Stúdentar á Möltu taka virkan þátt í mótmælaaðgerðum gegn stjórnvöldum í þeirri trú að háskólar, og sér í lagi stúdentar, verði að standa vörð um sín gildi og láta í sér heyra þegar frelsi og lýðræði er ógnað.
Á BM koma fulltrúar landssamtaka stúdenta frá allri Evrópu saman til þess að deila reynslu sinni af hagsmunabaráttu. Sömuleiðis er þingið vettvangur fyrir fulltrúana til þess að sammælast um sameiginleg baráttumál og gildi. Dagana fyrir þingfundinn fræddu landssamtökin hvort annað um hin ýmsu framtök á vegum stúdenta sem snúa að aðgengi, sjálfbærni og mannréttindum. Á þinginu sjálfu settu aðildarfélögin og ESU sín gildi í orð í formi laga, stefna og yfirlýsinga.
Lagabreytingar sem teknar voru fyrir, og sumar samþykktar, sneru flestar að því að gera lögin skýrari og skilvirkari. Tvær mikilvægar stefnur voru endurskoðaðar, endurbættar og að lokum samþykktar. Þar var annars vegar um að ræða stefnu um mannréttindi og samstöðu (e. human rights and solidarity) og hins vegar stefnu um félagslega vídd í gæðamálum (e. social dimension policy). Fjöldi yfirlýsinga voru skrifaðar og þær samþykktar. Þar má helst nefna yfirlýsingu um loftslagsvána og þátt háskólasamfélagsins í að sporna við hlýnun jarðar.
Baráttumál stúdenta eru víðtæk og finnast þau hvarvetna í samfélaginu kjarninn í baráttunni snýst um gæði náms á háskólastigi, þar með talið aðgengi að námi. Ein af þeim yfirlýsingum sem tekin var fyrir á þinginu fól í sér kröfur stúdenta um framtíð Bologna-ferlisins, sem tryggja á gæði háskólanáms í Evrópu. Brýnt er að kerfið taki mið af sjónarmiðum stúdenta ef það á raunverulega að hafa tilætluð áhrif.
ESU berast reglulega umsóknir um aðild, en á þessu þingi sóttu tvö félög um inngöngu. Eitt þeirra, GSOA frá Georgíu, var samþykkt einróma en hinu, LINK frá Ítalíu, var hafnað. Fulltrúar LÍS hafa hins vegar fulla trú á LINK og hafa efnt til samstarfs með þeim. LINK fengu ekki inngöngu á grundvelli tilraunakennds kosningakerfis innan samtakanna og þess að önnur ítölsk samtök eru í ESU. Það þótti fulltrúum LÍS miður enda kosningakerfi LINK áhugaverð leið að lýðræði sem ESU gæti mögulega dregið lærdóm af. LINK standa fyrir stóran hluta ítalskra stúdenta og voru mörg aðildarfélög innan ESU ósátt með framgang annarra aðildarfélaga í garð LINK. Því ákváðu fulltrúar LÍS ásamt fulltrúum landssamtaka írskra stúdenta að samþykkja að vinna með LINK að því að sækja á ný um kandídátsaðild að ESU síðar meir.
Þinginu lauk með því að þingfulltrúar samþykktu yfirlýsingu frá KSU, landssamtaka stúdenta á Möltu, einróma. Yfirlýsingin sneri að ólíðandi framkomu stjórnvalda á Möltu í garð þegna sinna og bar í sér kröfu um tafarlausa afsögn forsætisráðherra Möltu á þeim grundvelli.