Annar dagur landsþings LÍS 2019 - Stefna um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi samþykkt
Annar dagur landsþings hófst með tillögu framkvæmdastjórnar að verk- og fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2019-2020 þar sem farið var í gegnum breytingatillögur sem fengu einróma samþykki. Þrír fyrirlesarar fóru í framhaldinu með erindi. Það voru þær Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ, og Rakel Guðmundsdóttir, stjórnmálafræðingur. Fanney lýsti framgangi vinnu innan forsætisráðuneytis um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig móttökur innan samfélagsins hafa verið. Lára flutti erindi þar sem hún fjallaði um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð þar sem sérstök áhersla var lögð á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og atvinnulífs með innsýn í það hvernig stúdentar og háskólasamfélagið geta stuðlað og beitt sér fyrir breytingum þar fyrir innan. Rakel fjallaði um vistvæna neysluhyggju sem takmarkaða lausn við loftslagsvandanum með sérstakri áherslu á sína eigin reynslu hvað varðar skort á tækifærum í námi um umhverfismál og persónuleg framtök til þess að stuðla að vistvænni neyslu. Innlegg hennar var mikilvæg og persónuleg innsýn í umfangsefnið og gaf einnig hugmynd um þá þætti sem hægt er að hafa áhrif á frá sjónarhorni stúdenta..
Einnig fóru fram vinnustofur þar sem unnið var út frá forgangsröðun stúdenta að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fór fram á fyrsta degi landsþings. Upp komu margar hugmyndir að efnivið sem verður nýttur til að móta stefnu LÍS um sjálfbærni á næsta starfsári
Framkvæmdastjórn LÍS lagði fram nýja stefnu um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi. Sonja Björg Jóhannsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS kynnti stefnuna. Bæði framkvæmdastjórn LÍS og aðildarfélög sendu inn breytingatillögur að stefnunni og eftir samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og var jafnréttisstefna samþykkt einróma af fulltrúum stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta á erlendri grundu.
Þetta markar tímamót í sögu LÍS þar sem þetta er fyrsta jafnréttisstefnan sem íslenskir stúdentar hérlendis sem og íslenskir stúdentar á erlendri grundu koma að. Í jafnréttisstefnunni eru tekin fyrir helstu málefni er varða jafnréttismál stúdenta, m.a. jafnt aðgengi að námi, fjölbreytileiki innan háskólasamfélagsins, kennsla og heilsa stúdenta. Undirstaða jafnréttis er aðgengi en það er hugtak sem lýsir hve vel umhverfi þjónar þörfum hvers og eins einstaklings. Háskólanám á að vera opið öllum, óháð aldri, efnahag, félagslegum aðstæðum, búsetu, fötlun, litarhafti, kyni, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, kynþætti, skoðunum, trú, uppruna, veikindum eða annarri stöðu. Jafnt aðgengi felst ekki einungis í því að tryggja aðgengi að námi, heldur einnig á meðan námi stendur. Háskólar á Íslandi eiga að fagna fjölbreytileika innan sinna veggja og sjá til þess að tækifæri allra til þátttöku séu tryggð. Jafnt aðgengi að námi er ekki raunverulega uppfyllt nema að stúdentahópurinn endurspegli samfélagið með fullnægjandi hætti. Hér má nálgast nýsamþykkta stefnu LÍS um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi.