Fyrsti dagur landsþings LÍS 2019 - Sjálfbærni og háskólasamfélagið
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, forseti LÍS, setti sjötta landsþing samtakanna í dag, þann 29. mars 2019, en í framhaldi fylgdu ávörp frá Elísabetu Brynjarsdóttur, forseta SHÍ, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ. Landsþingið var skipulagt með SHÍ og ber yfirheitið Sjálfbærni og háskólasamfélagið - Hver er okkar samfélagslega ábyrgð? Þingið fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna en þar koma saman fulltrúar frá öllum aðildarfélögum LÍS. Framkvæmdastjórn kynnti ársskýrslu samtakanna og fjármálastjóri LÍS bar ársreikning samtakanna upp til samþykktar í upphafi dags.
Einnig lagði framkvæmdastjórn LÍS fram nýja stefnu um alþjóðavæðingu í íslensku háskólasamfélagi. Salka Sigurðardóttir, alþjóðafulltrúi LÍS, kynnti stefnuna sem byggð er á alþjóðastefnu samtakanna frá 2016. Eftir samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og ný stefna var samþykkt einróma af fulltrúum stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta á erlendri grundu. Markviss stefna um alþjóðavæðingu íslensks háskólasamfélags er nauðsynlegt skref í átt að samkeppnishæfara menntakerfi, víðsýnna samfélagi, fjölbreyttara vinnuafli og öflugra fræðastarfi. Alþjóðavæðing hefur einfaldað tengsl milli einstaklinga, samtaka og stofnana í ólíkum heimshornum og stuðlar þannig að auknum og hraðari samskiptum. Til grundvallar þessarar stefnu liggur sú hugmynd að jöfn tækifæri til náms, jafnt innanlands sem erlendis, séu ein af undirstöðum farsæls samfélags. Í stefnunni er meðal annars fjallað um hreyfanleika stúdenta og akademísks starfsfólks og er lögð sérstök áhersla á hreyfanleika akademísks starfsfólks og kennarastéttar enda er alþjóðleg reynsla ein áhrifaríkasta leiðin til að auka fjölbreytni í námi og kennsluaðferðum. Sömuleiðis er fjallað um þær hindranir sem steðja annars vegar að íslenskum stúdentum sem stunda nám erlendis og hins vegar alþjóðlegum stúdentum hér á landi. Síðasti kafli stefnunnar snertir á aðgengi flóttafólks og innflytjenda að námi og mikilvægi þess að fyrrnefndir hópar fái fyrra nám viðurkennt á Íslandi. Hér má nálgast nýsamþykkta stefnu LÍS um alþjóðavæðingu í íslensku háskólasamfélagi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti fyrstu tillögur að nýju lánasjóðsfrumvarpi sem fer í opið samráð í júní. Í kjölfarið voru góðar umræður milli landsþingsfulltrúa og ráðherra um nýsamþykktar úthlutunarreglur, fjármálaáætlun og menntastefnu. Öflugt samtal ráðherra og stúdenta er mikilvægt og þá ekki síst á samráðsvettvangi líkt og landsþingi stúdenta.
Tveir fyrirlesarar fluttu erindi er sneru að yfirskrift landsþingsins í ár. Það voru þau Birgitta Stefánsdóttir, sem er sérfræðingur í teymi græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, og Jens Bonde Mikkelsen, sem sinnir stöðu þróunarráðgjafa innan landssamtaka danskra stúdenta. Birgitta starfar aðallega á sviði umhverfismerkja og úrgangs en einnig almennt í verkefnum tengdum neyslu. Erindi hennar bar heitið ,,Í átt að sjálfbærari framtíð”. Jens fjallaði um danskt sjónarhorn á sjálfbærni og hlutverk stúdenta í að efla sjálfbærni innan síns umhverfis. Eftir fyrirlestrana voru allir þátttakendur beðnir um að kjósa um þau atriði innan heimsmarkmiðanna sem þau telja að eigi að leggja áherslu á í þeim vinnustofum sem fram fara á öðrum degi landsþings.
Lagabreytingar samtakanna fóru einnig fram á landsþingi með venjubundnum hætti. Breytingar voru gerðar á ársgjöldum aðildarfélaga LÍS sem og ákveðið að á næsta starfsári samtakanna yrði ráðinn inn framkvæmdastjóri LÍS. Með innkomu framkvæmdastjóra mun hlutverk fjármálastjóra breytast og þótti því eðlilegt að breyta heiti embættisins í fjáröflunarstjóri. Framkvæmdastjórn lagði einnig til að heiti embættis formanns yrði breytt í forseta og þar af leiðandi yrði varaformaður að varaforseta. Í ljósi þess að LÍS eru samtök sem berjast fyrir jafnrétti allra kynja þá gera samtökin sér grein fyrir kynjaðri hlutdrægni innan samfélagsins. Hluti af þessu er að viðurkenna kynjaða málnotkun og að brjóta hana niður til þess að tryggja jafnt aðgengi og vellíðan allra í starfi samtakanna. LÍS þurfa að gera sér grein fyrir stöðu sinni og hvaða áhrif þau orð sem nýtt eru í daglegu starfi hafa. Með því að taka skref í átt að ókynjaðara máli sendum við bæði þau skilaboð að við gerum okkur grein fyrir þessu og að við viljum taka skref í átt að opnari samtökum. Þetta er einnig fordæmisgefandi og vonast samtökin til þess að þetta verði til eftirbreytni í samfélaginu öllu. Þessi breyting er einnig í takt við ígildi þessarar stöðu í öðrum félagasamtökum og landssamtökum stúdenta á alþjóðavísu. Þá var einnig lögð fram sú tillaga að breyta heiti alþjóðaforseta í alþjóðafulltrúa til að samræma titla við önnur stúdentafélög, sem var samþykkt einróma af þinggestum landsþings.