Stúdentar eru líka launþegar

Stúdentar verða fyrir djúpstæðum áhrifum af heimsfaraldri COVID-19 eins og aðrir samfélagsþegnar og skiptir miklu máli að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin grípur til til þess að lágmarka áhrif faraldursins á hagkerfið nái einnig til stúdenta. 

Af þeim sökum gáfu Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, út umsögn um frumvarp  til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa og funduðu með velferðarnefnd Alþingis vegna þess síðastliðinn miðvikudag.

Frumvarpið heimilar sérstakar greiðslur frá atvinnuleysistryggingasjóði til launþega sem lenda í því að starfshlutfall þeirra skerðist vegna þeirra áhrifa sem heimsfaraldurinn hefur á íslenskt hagkerfi. Stúdentar á Íslandi, sem vinna mun meira með skóla en kollegar þeirra á Norðurlöndum, eiga almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum og eru þeir stúdentar sem eru bæði í námi og vinnu því undanskildir þeim björgum sem frumvarpið færir.

Í umsögn LÍS krefjast samtökin þess að stúdentar séu teknir með í reikninginn og þeim verði heimilað að sækja í sérstakan sjóð ef starfshlutfall þeirra skerðist. Ragnhildur Þrastardóttir, varaforseti LÍS, fór með þá kröfu inn á fund velferðarnefndar í morgun og talaði einnig fyrir því að stúdentar sem væru í hlutastarfi nytu einnig góðs af frumvarpinu. 

Sömuleiðis minntist hún á að í öðru frumvarpi sem nú er til umræðu á alþingi, frumvarpi til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir, þurfi að vera skýrt að stúdentum sem sinna hlutastörfum og eru jafnvel ekki með fast hlutastarf heldur breytilegar vaktir, sé tryggður sami réttur og öðrum. 

LÍS þakka nefndinni sérstaklega fyrir að hafa boðað sig á fundinn og vona innilega að sjálfsögðum óskum stúdenta verði komið á framfæri. Stúdentar treysta margir hverjir á laun til að framfleyta sér og því væri mjög bagalegt ef ríkisstjórnin væri ekki tilbúin í að létta undir með þeim eins og öðrum launamönnum á fordæmalausum tímum sem þessum. 

Umsögn LÍS má lesa á sérstakri COVID-19 síðu sem samtökin hafa sett upp. 

Tengill á síðuna er hér: https://studentar.is/covid19

Umsögn LÍS má sjá hér:

Umsögn+LÍS+_664.+mál-2.jpg
Previous
Previous

Stúdentar fá atvinnuleysistryggingar // Students get unemployment benefits

Next
Next

Ábyrgð háskólastofnanna í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 // The responsibility of Higher Education Institutions in light of the COVID-19 pandemic