Skólastarf nemenda í áhættuhópum á tímum kórónuveirunnar
Á þeim fordæmalausu tímum sem nú eru í samfélaginu er að mörgu að hyggja og þar á meðal er skólahald og framkvæmd þess á öllum skólastigum. Mörg hagsmunafélög fatlaðs fólks hafa bent á mikilvægi þess að tryggja nemendum í áhættuhópi, sem margir hverjir þurfa að forðast margmenni, þjónustu til að geta sinnt námi og fengið félagslegan stuðning til að einangrast ekki. Allir skólar hafa breytt skipulagi sínu með tilliti til þeirra reglna sem nú gilda um sóttvarnir. Skólunum hefur verið skipt upp í hólf til að lágmarka hópamyndun, aðgangur að skólunum hefur verið takmarkaður og mikið er um fjarnám, annað hvort alfarið eða að hluta. Allt eru þetta leiðir sem mögulegt er að fara en þá er einnig nauðsynlegt að huga að fleiri þáttum þegar kemur að nemendum í áhættuhópum.
Alþjóðaheilbrigðisyfirvöld hafa gefið út upplýsingar um ákveðna hópa sem myndu síður þola að veikjast af veirunni og gætu í versta falli látið lífið. Það á við um fólk sem býr við hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, sykursýki, krabbamein, taugasjúkdóma og aðra sjúkdóma sem hafa áhrif á ónæmiskerfi líkamans. Samkvæmt þessum leiðbeiningum er fólki í þessum hópum ráðlagt að fara varlega, forðast margmenni eins og kostur er ásamt því að huga vel að sóttvörnum. Fólk í áhættuhópum eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Þó það sé mikilvægast að hlífa áhættuhópum frá smiti þarf einnig bregðast við mögulegum langtíma afleiðingum sóttvarnarreglna.
Í ljósi þess að þeim einstaklingum sem þetta á við sé ráðlagt að vera heima að þarf að huga að nýjum lausnum. Fyrir ákveðin hóp nemenda sem býr við mjög mikla fötlun er fjarnám ef til vill ekki fýsilegur kostur vegna skertrar getu. Þessir nemendur hafa líkt og aðrir nemendur greitt greitt skráningargjöld og skólagjöld og stefndu á að hefja tiltölulega venjulega önn. Það hefur hins vegar orðið breyting á því, nú þegar ljóst er að veiran er að taka sig upp á ný.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, hefur skorað á menntamálayfirvöld „að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðum nemendum á öllum skólastigum þau mannréttindi að hafa tækifæri til náms til jafns við aðra og að taka tillit þarfa til sem þau hafa vegna fötlunar sinnar.“ Þau mannréttindi fela í sér að þátttaka þeirra í öllum þáttum námsins sé tryggð með viðeigandi stuðningi og lausnum. Þessir hópar eru illa útsettir fyrir langtíma afleiðingum einagrunar og rútínuleysi og því þarf að huga að fleiru en smithættunni einni.
Það er nauðsynlegt að geta boðið þessum nemendum upp á úrræði til að geta haldið áfram námi sínu, ekki bara námslegum stuðningi heldur einnig félagslegum. Heppilegt væri að geta boðið upp á stuðning á heimilum nemenda. Skipuleggja þarf félagslíf þannig að þátttaka í fjarfundabúnaði sé möguleg. Hvaða úrræði stendur þessum nemendahópi til boða til að stunda námi sínu? Hvaða úrræði standa þeim til boða til að taka þátt í félagslífi með skólafélögum sínum?