Nýr framkvæmdastjóri á skrifstofu Landssamtaka íslenskra stúdenta
Emilía Björt er 24 ára laganemi við Háskóla Íslands. Áður hefur hún lokið BA gráðu í stjórnmálafræði við sama skóla. Þá lauk hún stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2017.
Meðfram námi hefur hún starfað við ýmis störf m.a. Hjá Hagstofu Íslands og Skattinum. Hjá Skattinum starfaði hún einna helst við að aðstoða skuldara við innheimtu og gerð greiðsluáætlana. Þá hefur hún fjölbreytta reynslu úr félagsstörfum m.a. sem gjaldkeri Politicu, nemendafélags stjórnmálafræðinema. Hún sat einnig í Lagabreytinganefnd SHÍ við endurskoðun laga Stúdentasjóðs.
Emilía Björt hefur mikinn áhuga á og metnað fyrir hagsmunabaráttu stúdenta. Bæði menntun hennar og fyrri störf munu nýtast vel starfi hennar sem framkvæmdastjóri. Hún býr sömuleiðis yfir jákvæðu viðmóti og ríkri þjónustulund. Fulltrúaráð LÍS ákvað því að ráða hana sem framkvæmdastjóra samtakanna og hlökkum við til samstarfsins framundan.