85. fundur ESU í Tallinn

85. stjórnarfundur Evrópusamtaka stúdenta (ESU) átti sér stað í Tallinn dagana 20-26. nóvember. Fyrir hönd LÍS mættu  Sylvía Lind og Þóra Margrét , meðlimir í alþjóðanefnd LÍS, ásamt Alexöndru Ýr, forseta LÍS.

Stjórnarfundir ESU eru haldnir tvisvar á ári og koma þar saman fulltrúar frá aðildarfélögum ESU en ESU samanstendur af 45 landssamtökum stúdenta. Fundurinn var haldinn í Tallinn, höfuðborg Eistlands og var í boði Landssamtaka eistneskra stúdenta. LÍS þakkar kollegum okkar frá Eistlandi kærlega fyrir gestrisnina og stórgóða skipulagsvinnu.

Þétt dagskrá beið fulltrúanna að vanda en alla daga var unnið frá morgni til kvölds. Fyrsti dagurinn samanstóð af erindum og umræðum frá eistneskum og úkraínskum stjórnmálamönnum en ESU hefur gætt réttinda úkraínskra stúdenta eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fulltrúar frá Hvíta Rússlandi tóku sömuleiðis þátt í pallborði um stöðu stúdenta í Hvíta-Rússlandi. Einnig voru innlegg og umræður um eistneska háskólaumhverfið og komandi Evrópuþingskosningar.

Annar dagurinn var einnig fyrirlestrardagur og hittust fulltrúarnir í einum af háskóla Tallinn borgar. Á dagskrá var meðal annars fyrirlestrur um stöðu fatlaðra nemenda í Evrópu, Bologna samstarfið, kynning frá Úkraínskum stúdentum ásamt umræðum.

Næstu þrír dagar voru tileinkaðir fundinum sjálfum. Stefna ESU um félagslega vídd stúdenta var uppfærð og nýtt verklag um þátttöku fólks af fjölbreyttum uppruna í starfi stúdentahreyfingarinnar samþykkt. Einnig voru nýjar stefnur um gervigreind í háskólanámi og útrýmingu kynbundins ofbeldis í háskólaumhverfi samþykktar. Þá voru fjármál ESU skeggrædd og ný fjármálaáætlun samþykkt. Þar sem flest lönd innan ESU eru partur af Evrópusambandinu var mótuð verkáætlun stúdenta vegna komandi Evrópuþingskosninga. Þá sóttu ný samtök frá Úkraínu um aðild að ESU og samevrópsk stúdentasamtök nemenda í sálfræði sóttu um áheyrnaraðild.

LÍS fylgdi eftir ályktun fulltrúaráðs LÍS um málefni Palestínu og Ísrael og var einnig meðflutningsmaður að ályktun um stöðu stúdenta í Palestínu og Ísrael. Málin voru þó ekki samþykkt.

Previous
Previous

Opið fyrir framboð í stöðu alþjóðafulltrúa

Next
Next

Yfirlýsing LÍS vegna stríðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu