Yfirlýsing LÍS vegna viðræðna um sameiningu háskóla

Á fulltrúaráðsfundi LÍS var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt um sameiningu háskóla:

Yfirlýsing LÍS vegna viðræðna um sameiningu háskóla

Í ljósi viljayfirlýsingar um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum sem og óformlegra viðræðna um mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst senda Landssamtök íslenskra stúdenta frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Samtökin telja brýnt að ítreka fyrir stjórnvöldum að í allri umræðu um samstarf og sameiningu háskóla þarf að tryggja fullt samráð við stúdenta. Enn fremur þarf að tryggja að allt samstarf sé gert með hag nemenda að leiðarljósi. 

Landssamtök íslenskra stúdenta telja að markmið með auknu samstarfi eða mögulegri sameiningu þurfi að vera skýr. LÍS telja stjórnvöld þurfa að sýna fram á með óyggjandi hætti að markmið sameiningar sé að auka gæði náms, tryggja aðgengi stúdenta að stoðþjónustu og bæta aðgengi að námi. 

Það er ekki launungarmál að hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur verið fjársveltur um langt skeið og  er Ísland eftirbátur samanburðarþjóða sinna þegar kemur að fjárfestingu í háskólamenntun. Langvarandi fjársvelti háskólanna er afleiðing af stefnu stjórnvalda í menntamálum og vísa samtökin því á bug að sameining háskóla sé fýsileg lausn á hinum heimatilbúna vanda sem fjársveltið er. Hagræðing í ríkisrekstri má ekki vera forsenda fyrir jafn afdrifaríkum aðgerðum og þessar yrðu, taka þarf á menntamálum af meiri festu en svo.

Að lokum skýtur það skökku við að ekki hefur verið gerð greining á þeim kostum og göllum sem hljótast af því að hafa starfandi 7 háskóla á landinu. Slík greining hefði átt að fara fram áður en hvatt var til sameiningar og niðurstöður hennar ættu að liggja til grundvallar öllum viðræðum um mögulegar sameiningar. Hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur sína sérstöðu og ekki má vanmeta þá kosti sem það leiðir af sér. Þar má helst nefna fjölbreytni í námi og hvernig dregið hefur verið úr einsleitni í háskólakerfinu með stofnun nýrra háskóla. 

Previous
Previous

Fréttabréf LÍS 2023 tbl. 2

Next
Next

Taktu þátt! Opið fyrir umsóknir í nefndir LÍS