Evrópska ungmennavikan

Evrópska ungmennavikan var haldin dagana 12. - 19. apríl. Íslensk sendinefnd landsskrifstofu Erasmus+ sótti opnunarviðburð hátíðarinnar sem var haldinn í Evrópuþinginu í Brussel þann 12. apríl. Alexandra Ýr, forseti LÍS, var einn þátttakandi sendinefndarinnar auk þeirra Helgu Júlíu og Rebekku Nótt úr stjórn Samfés+, Ingibjörgu Ástu sjálfboðaliða Rauða Krossins, Sayed sem hefur starfað með Amnesty International og Guðmundi Ara sérfræðingi á landsskrifstofu Erasmus+.

Ungmennavikan er haldin annað hvert ár um alla Evrópu þar sem vakin er athygli á margskonar tækifærum sem eru í boði fyrir ungt fólk til að hafa áhrif og vera virkir þátttakendur í samfélaginu.  Lifandi lýðræði var yfirskrift vikunnar í ár en þátttaka í lýðræðissamfélagi er eitt af áhersluatriðum Erasmus+ og European Solidarity Corps. LÍS hefur sótt í styrki Erasmus+ síðastliðin ár m.a. fyrir fjármögnun á Landsþingi LÍS en landsþingið er stærsti sameiginlegi vettvangur stúdenta á Íslandi fyrri stefnumótun og lýðræðislega umræðu um menntamál.

Á opnunarviðburðinum gafst einstakt tækifæri til þess að ræða mennta- og æskulýðsmál við fulltrúa Evrópuþingsins. Alexandra tók m.a. þátt í málstofu um sameiginlega evróska háskólagráðu sem er nýr stefnurammi fyrir háskólastigið og hvers markmið er að efla samvinnu milli háskóla í Evrópu. Hún sótti einnig málstofu um húsnæðismál stúdenta sem hafði það að markmiði að leita lausna við þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við háskólanemum um alla Evrópu.

Previous
Previous

Umsögn um frumvarp um breytingar á Menntasjóði námsmanna

Next
Next

Hádegismálþing gæðanefndar LÍS