Eru evrópskir háskólar í fararbroddi?

Lísa Margrét, forseti LÍS, flutti ávarp á málþingi sem fjórir íslenskir háskólar stóðu fyrir 14. október undir yfirskriftinni „Eru evrópskir háskólar í fararbroddi?“. Málþingið var haldið í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.

Á málþinginu var rætt um ávinning og áskoranir þátttöku íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum, áhrif þeirra á nemendur, starfsfólk og samfélagið, auk umræðu um framtíð slíks samstarfs.

Í ávarpi sínu lagði Lísa Margrét áherslu á að kjarninn í evrópskum háskólanetum séu samfélögin innan háskólanna - nemendur, kennarar og fræðafólk - en ekki stofnanirnar einar og sér. Hún benti á að þrátt fyrir fjölmörg tækifæri til náms og samstarfs innan Evrópu viti færri en fjórðungur íslenskra stúdenta af þeim möguleikum sem standa til boða.

Lísa Margrét ræddi einnig mikilvægi þess að tryggja einfalt og aðgengilegt ferli fyrir stúdenta, auk sveigjanlegra námsleiða og sjálfvirkrar viðurkenningar náms milli landa. Þá undirstrikaði hún að íslenskir háskólar þurfi að viðhalda virku samstarfi og samtali við stúdentahreyfinguna við þróun evrópskra háskólaneta og að rödd og reynsla stúdenta endurspeglist í þeirri vinnu.

LÍS fagnar virku alþjóðasamstarfi íslenskra háskóla sem stuðlar að aukinni tengingu milli fræðasamfélaga, eflir menntun og styrkir fjölbreytt og alþjóðlegt háskólasamfélag á Íslandi.

Next
Next

LÍS mótmælir fyrirhuguðum hækkunum á skrásetningargjöldum háskóla