LÍS mótmælir fyrirhuguðum hækkunum á skrásetningargjöldum háskóla
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) harma ákvörðun stjórnvalda um að heimila opinberum háskólum að hækka skrásetningargjald úr 75.000 kr. í allt að 100.000 kr. Samtökin minna á að árið 2023 var gjaldið úrskurðað ólögmætt og enn er beðið niðurstöðu áfrýjunarnefndar í endurupptöku málsins.
„Þessi ákvörðun er ekki aðeins ósanngjörn heldur stríðir gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands,“ segir Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og vísar til 13. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þar sem kveðið er á um að æðri menntun skuli vera öllum aðgengileg og þróunin stefna að því að hún verði ókeypis.
Hækkun leysir ekki undirfjármögnun háskólanna
LÍS bendir á að hækkun skrásetningargjalda nægi ekki til að rétta af viðvarandi undirfjármögnun háskólakerfisins. Á sama tíma felur hækkunin í sér verulega aukningu útgjalda fyrir hinn almenna stúdent.
Samkvæmt nýjustu könnun Eurostudent glímir yfir 30% íslenskra háskólanema við alvarlegan eða mjög alvarlegan fjárhagsvanda. Fjárhagsáhyggjur stúdenta eru hvergi meiri á Norðurlöndunum. Þá hefur kaupmáttur ungs fólks staðið í stað í tvo áratugi og arðsemi háskólamenntunar aldrei verið minni, samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir BHM.
Stúdentar bera þegar þungar byrðar
„Það skýtur skökku við að draga úr hvata til náms með því að auka fjárhagsbyrðar stúdenta á þessum tíma,“ segir Lísa Margrét. Hún bendir á að 74% háskólanema á vinnumarkaði starfi með námi til að eiga efni á námi sínu og að meira en þriðjungur íslenskra stúdenta séu foreldrar í námi.
Krafa LÍS til stjórnvalda
Í ljósi nýútgefinnar skýrslu OECD krefjast LÍS þess að stjórnvöld bregðist við rót vandans með því að tryggja grunnfjármögnun háskólastigsins til jafns við meðaltal OECD-ríkja, í stað þess að velta kostnaði yfir á stúdenta sem þegar búa við efnahagslegt óöryggi og ófullnægjandi námslánakerfi.