Breytingar til hins betra á íslenskum námslánum
Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem taka gildi 1. apríl 2026. Breytingarnar fela í sér jákvæð skref í átt að sanngjarnara og sveigjanlegra námslánakerfi sem nýtist breiðari hópi stúdenta og veitir meira svigrúm að námi loknu.
Niðurfelling sem nýtist fleirum
Í stað þess að fá 30% niðurfellingu í lok náms munu stúdentar fá 20% niðurfellingu í lok hverrar annar og 10% aukalega við námslok, að því gefnu að námi sé lokið á réttum tíma. Þessi breyting gerir kerfið sveigjanlegra og tryggir að fleiri stúdentar njóti góðs af niðurfellingunni.
Meira svigrúm eftir útskrift
Frá og með 1. apríl 2026 munu afborganir námslána hefjast 18 mánuðum eftir útskrift, í stað 12 mánaða líkt og áður. Þetta veitir nýútskrifuðum stúdentum meira svigrúm til að fóta sig á vinnumarkaði áður en afborganir námslána hefjast.
Einfalt greiðslufyrirkomulag
Þeir sem eru bæði með LÍN-lán og MSNM-lán geta framvegis sótt um að greiða af einu láni í einu, fyrst MSNM-lánið og síðan LÍN-lánið. Með þessu minnkar greiðslubyrði þeirra sem bera ábyrgð á lánum í báðum kerfum.
LÍS fagnar þessum breytingum og lítur á þær sem mikilvægt skref í þá átt að tryggja að námslánakerfið endurspegli betur raunveruleika stúdenta og fjölbreyttar aðstæður þeirra.
Ef spurningar vakna um breytingarnar eða framkvæmd þeirra er hægt að senda fyrirspurn á lis@studentar.is eða með fyrirspurnarforminu á studentar.is (neðst á forsíðu).