Júlíus Andri Þórðarson ráðinn framkvæmdastjóri LÍS

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa ráðið Júlíus Andra Þórðarson í starf

framkvæmdastjóra samtakanna. Hann hefur þegar hafið störf og mun gegna embættinu

til 1. júní 2026.

Júlíus Andri er útskrifaður með BA-gráðu í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum

á Bifröst. Hann hefur á síðustu árum aflað sér víðtækrar reynslu af hagsmunabaráttu,

stefnumótun og félagsstörfum, meðal annars sem varaforseti og hagsmunafulltrúi

Nemendafélags Háskólans á Bifröst. Þá hefur hann einnig setið í háskólaráði og

jafnréttisnefnd háskólans.

„Það er heiður að fá að starfa með LÍS á tímum þar sem raddir stúdenta skipta sköpum,“

segir Júlíus Andri. „Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að styrkja hagsmunabaráttu

stúdenta og efla sýnileika hennar, sem of oft hefur fengið takmarkaða athygli.“

Júlíus Andri hefur jafnframt reynslu af stjórnmálastarfi, kosningabaráttum og

almannatengslum.

Samkvæmt forseta LÍS er ráðning hans mikilvæg styrking fyrir

samtökin. „Við erum sannfærð um að fjölbreytt reynsla Júlíusar og þekking hans á bæði

hagsmunagæslu og miðlun muni efla starfsemi LÍS á næsta starfsári,“ segir Lísa Margrét

Gunnarsdóttir sem var endurkjörin forseti LÍS á landsþingi samtakanna s.l. vor.

Previous
Previous

Árleg ráðstefna Gæðamats háskóla 2025 // IAQA annual conference 2025

Next
Next

Borgar sig að vanmeta menntun?