Annáll alþjóðafulltrúa 2025
Alþjóðamál eru mikilvægur hluti af starfsemi LÍS og sækir alþjóðafulltrúi LÍS hina ýmsu fundi og ráðstefnur á ári hverju. LÍS eiga aðild að þremur alþjóðlegum samstarfsvettvöngum, en þeir eru European Students’ Union (ESU), Nordisk Ordförande Møte (NOM) og The North Atlantic Island Student Cooperation (NAIS). ESU eru regnhlífarsamtök evrópskra stúdentahreyfinga og samanstanda af 44 aðildarfélögum frá 40 Evrópulöndum. NOM er samráðsvettvangur fyrir stúdentafélög á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum en þennan samráðsvettvang stúdenta á Norðurlöndunum má rekja allt til ársins 1946, en árið 2006 bættust Eystrasaltsríkin við þennan vettvang og í dag er NOM í forsvari fyrir rúmlega milljón stúdenta. NAIS er samráðsvettvangur eyríkja í Norður-Atlantshafi og eru aðildarfélög þess AVALAK (Samtök grænlenskra stúdenta í Danmörku), ILI ILI (Landssamtök stúdenta á Grænlandi), LÍS og MFS (Samtök færeyskra stúdenta). Fyrsti fundur NAIS var haldinn árið 2019 og er markmið þessa vettvangs að styrkja háskólamenntun á norðurslóðum.
Fulltrúar LÍS sóttu eftirfarandi fundi og ráðstefnur árið 2025:
ESC 49 - Galway
Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi LÍS, sótti 49. European Student Convention sem haldin var í Galway í febrúar og voru gestgjafar og skipuleggjendur AMLÉ (Landssamtök írskra stúdenta). Þema ráðstefnunnar var „Gæði í háskólanámi“. ESC er hluti af starfi ESU og því sækja flest aðildarfélög þess þessar ráðstefnur. Haldnir eru fyrirlestrar, tengslamyndunarviðburðir, og einkennast ráðstefnurnar af fjölbreyttri fræðslu og umræðum en einnig á sér stað undirbúningsvinna fyrir stjórnarfundi ESU sem haldnir eru að vori og hausti.
NOM85 - Tórshavn
86. NOM-fundurinn var haldinn í Tórshavn í Færeyjum og voru skipuleggjendur og gestgjafar MFS (Félag færeyskra stúdenta), en fulltrúi LÍS var Þóra Margrét alþjóðafulltrúi. Fulltrúar stúdentafélaga frá Norður- og Eystrasaltsríkjum komu saman og ræddu hin ýmsu mál. Þema þessa NOM fundar var „Áhrif heilaflótta (e. brain drain) á smærri samfélög og afskekktar byggðir“ og „Áhrif Erasmus+ á alþjóðlegt samstarf innan háskólastigs“. Bæði þessi málefni eru mikilvæg fyrir færeyska stúdenta, en stúdentar við Háskólann í Færeyjum hafa ekki aðgang að Erasmus+. Þetta hefur víðtæk áhrif á möguleika þeirra til skiptináms. Heilaflótti er einnig mikilvægt málefni fyrir Færeyjar, sérstaklega í ljósi þess að mikið af ungu fólki fer erlendis í nám, stærstur hluti þeirra til Danmerkur eða annarra Norðurlanda, og um 40% snúa ekki til baka að námi loknu. Hvert félag hélt kynningu um heilaflótta í samhengi við heimaland sitt og einnig var vinnustofa haldin um málefnið.
Kynning LÍS fjallaði um heilaflótta frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar vegna skerts aðgengis að æðri menntun á landsbyggðinni, en einnig um mikilvægi háskólastofnana utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig fjallaði fulltrúi LÍS um hve mikilvægt aðgengi að fjarnámi væri fyrir fólk í minni byggðarlögum. Hópurinn heimsótti Mennta- og barnamálaráðuneytið þar sem færeyska menntunarkerfið var kynnt. Einnig var farið í hús borgarstjórnar og rætt við Elsu Berg, bæjarstjóra Færeyja, og hélt hún kynningu um hvernig tekist hefði að byggja Tórshavn upp sem háskólabæ.
BM89 - Banja Luka
Þann 12. - 18. maí héldu fulltrúar LÍS á 89. stjórnarfund ESU. Fulltrúar LÍS voru Lilja Margrét, gæðastjóri, Lísa Margrét, forseti, og Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi. Stjórnarfundir ESU, eða BM (Board Meeting), eru haldnir tvisvar sinnum á ári og fer þar fram ýmis konar vinna. Þar móta aðildarfélög starf og stefnu ESU, vinnuáætlun ársins, leggja fram og samþykkja ályktanir og samþykkja yfirlýsingar, ásamt öðrum málefnum. Á stjórnarfundum sem haldnir eru að vori er svo einnig kosið í nýja framkvæmdarstjórn, en hún samanstendur af forseta, tveimur varaforsetum og 7 aðilum sem einnig sitja í framkvæmdastjórn.
Stjórnarfundurinn var að þessu sinni haldinn í Banja Luka í Bosníu & Hersegóvínu. Sjálfur stjórnarfundurinn stendur yfir í þrjá daga, en tveir dagar fyrir fundinn eru nýttir í ýmsa fyrirlestra og málstofur ásamt pallborðsumræðum. Einnig er farið yfir gögn fyrir fundinn sjálfan. Á stjórnarfundinum sjálfum var kosið í nýja framkvæmdastjórn. Einnig voru samþykktar yfirlýsingar ESU. Þær voru Yfirlýsing um starfsmenntun og starfsþjálfun, Yfirlýsing um réttindi og þátttöku fatlaðra nemenda, Yfirlýsing vegna bylgju nemendamótmæla í Evrópu og Yfirlýsing um innleiðingu Evrópska einingakerfisins (ECTS). Hægt er að lesa yfirlýsingarnar inn á vefsíðu ESU: BM89 Resolutions and Statements - European Students' Union. Einnig voru samþykktar hinar ýmsu ályktanir sem aðildarfélög lögðu fram. Að auki var verkáætlun fyrir komandi starfsárs ákveðin.
ESC50 - Barcelos
Lísa Margrét, forseti LÍS, sótti 50. ráðstefnu ESC sem haldin var í Barcelos, Portúgal. Gestgjafar og skipuleggjendur voru FAIRe (Landssamtök stúdenta í Portúgal). Þemað var „Nemendur móta framtíð Evrópu: Barátta fyrir eflingu Erasmus+ í langtíma fjárhagsáætlun ESB (e. Multiannual Financial Framework/MFF) 2028–2034“. ESU leggur mikla áherslu á Erasmus+ í sinni vinnu og hagsmunabaráttu, enda er aðgengi að Erasmus+ hornsteinn hreyfanleika stúdenta og hefur milljónum stúdenta verið kleift að stunda nám, starfsþjálfun, sjálfboðaliðastörf og vinnu erlendis. Þar sem stúdentar eru stærstu hagaðilar að Erasmus+ leggur ESU mikið upp úr því að rödd þeirra og skoðanir fái að heyrast þegar móta á framtíð Erasmus+.
NOM87 - Osló
87. NOM fundurinn fór fram í Osló í október og var Lilja Margrét gæðastjóri fulltrúi LÍS á fundinum. NSO (Landssamtök stúdenta í Noregi) voru gestgjafar og skipuleggjendur. Þemað að þessu sinni var „Háskólamenntun sem félagsleg sjálfbærni í Evrópu á tímum viðbúnaðar vegna neyðarástands“. Þemað var valið með það til hliðsjónar hvernig pólitískt umhverfi hefur verið að þróast, og er þetta málefni sérstaklega mikilvægt fyrir Eystrasaltsríkin. Á NOM fundinum sjálfum var samþykkt sameiginleg ályktun sem var byggð á þema helgarinnar og einnig voru samþykktar tvær ályktanir frá LÍS. Þær eru „Aðkoma nemenda að sameiningum háskólastofnanna“ og “Landssamtök íslenskra stúdenta mótmæla fyrirhugaðri hækkun skrásetningargjalda í háskólum“. Lesa má þær á studentar.is undir Upplýsingar og réttindagæsla → Stefnur, yfirlýsingar og umsagnir.
NAIS6 - Tórshavn
6. fundur NAIS samstarfsins var haldinn í Tórshavn í Færeyjum í október og voru skipuleggjendur MFS (Samtök færeyskra stúdenta). Gestir voru AVALAK (Samtök grænlenskra stúdenta í Danmörku), ILI ILI (Landssamtök stúdenta á Grænlandi) og LÍS. Þema fundarins var „Tækifæri til náms á eyjum Norður-Atlantshafs“. Vel var við hæfi að halda þennan 6. NAIS fund í Færeyjum þar sem þar er eitt minnsta háskólaumhverfi í Evrópu, en í Færeyjum er einn háskóli og nokkur þúsund nemendur.
Yfir helgina var meðal annars haldin kynning á ESU og NOM, en aðeins MFS og LÍS eru aðildarfélög að þessum vettvöngum. Haldin var kynning á nýju háskólagörðunum sem á að byggja í Tórshavn. Að lokum voru skipulagðar vinnustofur um NAIS samstarfið og áherslur þess, og hvert félag hélt kynningu sem innihélt meðal annars upplýsingar um sitt stúdentafélag, háskólamenntun í heimalandinu, helstu tækifæri og hindranir í háskólamenntun í heimalandinu og raunveruleiki nemenda út á landsbyggðinni og afskekktum byggðarlögum.
BM90 - Vín
90. Stjórnarfundur ESU var haldin í Vín í desember og voru fulltrúarnir Lísa Margrét, forseti LÍS, og Abdullah Arif, meðlimur alþjóðanefndar. Skipuleggjendur og gestgjafar voru ÖH (Landssamtök stúdenta í Austurríki). Á fundinum var samþykkt uppfærð gæðastefna ESU, yfirlýsing um menntun til virkrar borgaraþátttöku, yfirlýsing um örnámskeið (e. Blended intensive program) og fjölmargar yfirlýsingar frá aðildarfélögum.
LÍS lagði fram þrjár ályktanir sem báðar voru samþykktar einróma; ályktun um aðkomu nemenda að sameiningu háskólastofnana, en lesa má hana á vefsíðu ESU: Resolution on Student Participation in Higher Education Institution Mergers - European Students' Union.
Einnig lagði LÍS fram ályktun um verndun réttinda nemenda utan EES ásamt öðrum stúdentafélögum á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, en ályktunina má lesa hér: Resolution on protecting non-EU/EEA international students’ rights in Northern Europe - European Students' Union. Að lokum lagði LÍS, ásamt öðrum stúdentafélögum, fram ályktun um aðgengi palestínskra nemenda að námi, en ályktunina má lesa í heild sinni hér: Easing visa-based access to studies abroad for Palestinian students - European Students' Union. Fulltúar LÍS eru ánægðir með framvindu stjórnarfundarins, en fundirnir eru mikilvægur liður í starfi ESU og til tengslamyndunar við aðrar stúdentahreyfingar.