Háskóladagurinn 4. mars
Háskóladagurinn var haldinn hátíðlega þann 4. mars síðastliðinn en þúsundir lögðu leið sína í Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands til þess að kynna sér það nám sem háskólar landsins bjóða upp á. Fulltrúar frá öllum skólunum kynntu þær rúmlega 500 námsleiðir sem í boði eru en auk kynninga á þeim voru m.a. alls konar skemmtilegar uppákomur, kynningar á þeim tækjum og tólum sem skólarnir búa yfir sem og á ýmsum rannsóknum.
Landssamtök íslenskra stúdenta tóku þátt í fyrsta skipti í deginum en fulltrúar frá samtökunum stóðu vaktina í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Þar gafst verðandi háskólanemum auk annarra gesta tækifæri á að kynna sér samtökin. Þá voru margir sem gáfu sig á tal við fulltrúa LÍS og spurðu út í starfsemi samtakanna sem og hin ýmsu málefni sem varða stúdenta.
LÍS vonar að þetta verði fastur liður í starfsemi samtakanna en það var frábært að fá tækifæri til þess að kynna samtökin og vera til staðar til að svara ýmsum spurningum. Nú er ekki annað en að vona að verðandi háskólanemar séu einhverju nær um valið á sínu námi. Sjáumst í einhverjum af þeim sjö háskólum sem Ísland býr yfir, í haust!