Landsþing LÍS 2017: “Hvers virði er mín menntun? – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna“
Landsþing LÍS verður haldið í Háskólanum á Akureyri um helgina, 17. - 19. mars.
Yfirskrift þingsins er: Hvers virði er mín menntun – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna. Þema þingsins í ár snýr því að gæðastarfi í íslenskum háskólum og þátttöku stúdenta í því. Í framhaldi verður unnin stefna í gæðamálum sem við teljum nauðsynlega fyrir framþróun íslensks háskólasamfélags. Einn af hornsteinum samtakanna við stofnun árið 2013 var að vinna ötullega að samræmingu gæðastarfs milli háskóla á Íslandi.
Fyrirlesarar á þinginu verða Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Sigurður Óli Sigurðsson, sérfræðingur hjá Rannís, María Kristín Gylfadóttir, sérfræðingur hjá Rannís, Einar Hreinsson, forstöðumaður kennslusviðs HR, Erna Sigurðardóttir, áheyrnarfulltrúi stúdenta í Gæðaráði íslenskra háskóla, og Arnheiður Eyþórsdóttir, aðjúnkt við auðlindadeild HA.
Ásamt fjörlegum dagskrárliðum um gæðamál verður skýrsla stjórnarinnar kynnt og reikningar samtakanna bornir upp, verklags- og lagabreytingar teknar fyrir og kjör formanns, gæðastjóra og alþjóðaforseta.
Fyrir utan öfluga stefnumótunarvinnu þá er þingið einnig mikilvægur vettvangur fyrir fulltrúa allra íslenskra stúdenta, þvert á landið, til þess að hittast, ræða hin ýmsu málefni stúdenta, miðla þekkingu og læra hver af öðrum.
Það er ljóst að umræður þingsins verða fjölbreyttar og með margvíslegu sniði en þó allar með það að markmiði að efla hagsmunabaráttu stúdenta.
Við erum full tilhlökkunar og bjartsýn á að afurð helgarinnar verði kærkomin viðbót í það flotta gæðastarf sem á sér stað í íslenska háskólasamfélaginu.
Aldís Mjöll Geirsdóttir og David Erik Mollberg