NOM72 í Litháen: Quality Assurance in Higher Education
Dagana 27. - 29. október sóttu fulltrúar LÍS NOM fund sem haldinn var af LSS, landssamtökum litháenskra stúdenta í Klaipéda, Litháen. NOM (Nordiskt Ordförande Møte) er samstarfsnet landssamtaka stúdenta á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum og eru reglubundnir fundir sem fulltrúar LÍS sækja tvisvar á ári.
Að þessu sinni var yfirskrift ráðstefnunnar “Quality Assurance in Higher Education” og tók á gæðakerfum í háskólum. Háskólakerfið í Litháen gengur nú í gegnum miklar breytingar þar sem unnið er að því að auka gæði háskólamenntunar sem og verið er að meta hvort eigi að fækka fjölda háskóla í landinu. Fengu ráðstefnugestir kynningu frá fulltrúa menntamálaráðuneytisins í Litháen sem hefur kynnt sér ólík kerfi sem byggð eru á mismunandi grunni, fyrst og fremst innan Evrópu og þá sérstaklega í Bretlandi, en einnig í Bandaríkjunum. Hægt var að finna að veigamiklar breytingar voru í aðsigi og einstaklega jákvætt að sjá að ríkisstjórn Litháen hefur lagt mikið upp úr samstarfi og samtali við litháenska stúdenta í gegnum LSS í þessu ferli og gerir sér grein fyrir því að tilraunir til bóta séu gagnslausar nema með sterkri aðkomu stúdenta.
Á ráðstefnunni fengu fulltrúar einnig kynningu á núverandi stöðu Bologna ferlisins frá Wenche Aasheim frá Noregi. Bologna ferlið snýr að því að skapa samevrópskt kerfi æðri menntunar (e. European Higher Education Area) en með tilvist slíks kerfis er hægt að tryggja að stúdentar viti að hverju þeir ganga í sínu námi. Það þýðir að námsgráður og gæðakerfi í háskólum standist samþykkta evrópska staðla samkvæmt Bologna. Þetta gerir stúdentum kleift að afla sér menntunar í mismunandi löndum án þeirra hindrana sem voru til staðar fyrir tilvist Bologna. Gott dæmi um mikilvægi Bologna ferlisins er samræmt einingakerfi milli landa sem við könnumst flest við sem ECTS einingar.
Í maí 2018 verður haldinn ráðherrafundur í París (e. Ministerial Conference Paris 2018), þar sem samþykktar verða áherslur kerfisins fyrir næstu tvö árin. Í undirbúningi fyrir það eru tveir fundir haldnir af Bologna Follow Up Group (BFUG), þar sem formleg undirbúningsvinna fyrir þær samþykktir sem verða teknar fyrir á ráðherrafundinum er unnin. Ásamt því sendir European Students´ Union (ESU), út könnun til aðildarfélaga sinna fyrir útgáfu ritsins Bologna With Students´ Eyes (BWSE). BWSE er rit sem gefur yfirsýn á stöðu Bologna ferlisins út frá mati stúdenta frá þeim löndum sem taka þátt í ferlinu og getur nýst sem öflugt tæki til að stuðla að breytingum og úrbótum sem Bologna ferlið á að hafa í för með sér. Þar sem Bologna ferlið er mjög yfirgripsmikið og inniheldur marga enda sem halda þarf til haga. Var mjög gott að fá kynningu á stöðu mála og heyra hvernig önnur landssamtök stúdenta hyggjast undirbúa sig fyrir næstu mánuði vegna ráðherrafundarins. LÍS eru reiðubúin fyrir þessa vinnu næstu mánuði og munu gæta þess sem ætíð að halda uppi virku samtali við íslensk yfirvöld og aðra viðeigandi aðila. Stúdentar þátttökulanda í Bologna ferlinu eiga rétt á sæti í sendinefnd lands síns á ráðherrafundinn og hefur menntamálaráðuneyti staðfest sæti fulltrúa frá LÍS.
Fulltrúar LÍS eru sáttir með ráðstefnuna og þakka LSS fyrir allt utanumhald og undirbúningsvinnu sem fór í hana. Nú tekur við frekari undirbúningsvinna fyrir næsta alþjóðlega viðburð, sem er stjórnarfundur European Students´ Union í Jerúsalem, haldinn af Landssamtökum ísraelskra stúdenta. Sá fundur mun koma til með að vera áskorun fyrir LÍS, sem kusu upphaflega gegn staðsetningu fundarins og fóru með yfirlýsingu til þess að ítreka óánægju með þessa ákvörðun. Munu LÍS koma til með að láta frekar í sér heyra þegar að fundinum sjálfum kemur.
Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur