
Student Refugees hlýtur styrk úr Samfélagssjóði Landsbankans
Landsbankinn úthlutaði styrkjum úr Samfélagssjóði Landsbankans 18. desember síðastliðinn og fengu alls 37 verkefni styrkveitingu. Þar á meðal var verkefnið Student Refugees sem er á vegum LÍS en verkefnið hlaut 500.000 krónur.
Frá vinstri: Guðrún Agnarsdóttir, formaður dómnefndar, Salka Sigurðardóttir, Sonja Björg Jóhannsdóttir og Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn úthlutaði styrkjum úr Samfélagssjóði Landsbankans 18. desember síðastliðinn og fengu alls 37 verkefni styrkveitingu. Þar á meðal var verkefnið Student Refugees sem er á vegum LÍS en verkefnið hlaut 500.000 krónur. Verkefnið felur í sér að útbúa leiðarvísi, handbók og vefsíðu með öllum þeim upplýsingum sem flóttafólk þarf á að halda til þess að eiga kost á að sækja um háskólanám á Íslandi. Styrkurinn mun koma til góðra nota við uppsetningu verkefnisins.
Verkefnastýrur Student Refugees eru Salka Sigurðardóttir, alþjóðaforseti LÍS, og Sonja Björg Jóhannsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS. Í byrjun nóvember var skipaður starfshópur sem mun vinna að uppsetningu verkefnisins og eru spennandi tímar framundan hjá hópnum. Verkefnið er sett upp eftir danskri fyrirmynd en Student Refugees varð til vegna frumkvæðis stúdenta í Danmörku. Studenterhuset leiðir verkefnið í Danmörku í samvinnu við landssamtök danskra stúdenta (DSF).
Jólakveðja frá LÍS
Landssamtök íslenskra stúdenta óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Við þökkum kærlega fyrir samstarfið og allar góðu stundirnar á árinu sem er að líða og hlökkum til að takast á við ný verkefni á komandi ári.
Við viljum einnig benda ykkur á að skrifstofa LÍS verður lokuð frá 21. desember til 2. janúar.
Nýr markaðsstjóri LÍS
Kosið var um nýjan markaðsstjóra LÍS í rafrænni kosningu sem fór fram innan fulltrúaráðs í lok nóvember. Kamilla Dögg Guðmundsdóttir hlaut kjör til embættisins en Kamilla sinnti áður nefndarstörfum innan markaðsnefndar.
Kosið var um nýjan markaðsstjóra LÍS í rafrænni kosningu sem fór fram innan fulltrúaráðs í lok nóvember. Kamilla Dögg Guðmundsdóttir hlaut kjör til embættisins en Kamilla sinnti áður nefndarstörfum innan markaðsnefndar. Kamilla útskrifast úr miðlun og almannatengslum frá Háskólanum á Bifröst næstkomandi febrúar og er það mikil gæfa fyrir samtökin að fá öflugan einstakling eins og Kamillu með í lið.
Framkvæmdastjórn er þar með fullskipuð að nýju en mörg verkefni eru fyrir höndum og eru LÍS full tilhlökkunar fyrir nýju ári.
Nýr markaðsstjóri LÍS - Kamilla Dögg
Hvernig tryggjum við gæði stafrænna kennsluhátta?
Ráðgjafanefnd Gæðaráðs íslenskra háskóla hélt málstofu þann 16. nóvember um hvernig hægt sé að tryggja gæði stafrænna kennsluhátta í Veröld - húsi Vigdísar.
Teitur Erlingsson hélt erindi fyrir hönd stúdenta.
Ráðgjafanefnd Gæðaráðs íslenskra háskóla hélt málstofu þann 16. nóvember um hvernig hægt sé að tryggja gæði stafrænna kennsluhátta í Veröld - húsi Vigdísar. Teitur Erlingsson, varaformaður LÍS, hélt erindi um viðhorf stúdenta til stafrænna kennsluhátta. Teitur ræddi mikilvægi þess að stafræn kennsla sé ekki litin öðrum augum en venjuleg kennsla. Gæði kennslunnar verði að vera tryggð á sama hátt og um hana gildi sömu gæðastaðlar. Þá talaði hann einnig um mikilvægi hennar sem jafnréttistæki. Stafræn kennsla gerir stúdentum, sem ekki hafa tök á að sækja kennslustundir í persónu, kleift að mennta sig og taka þátt í tímum. Sérstakur gestur málstofunnar var Frank Rennie, prófessor við “Highlands and Islands” háskóla í Skotlandi. Skólinn er mjög framarlega á heimsvísu þegar kemur að stafrænum kennsluháttum og er Frank þar í fararbroddi. Frank kynnti fyrir gestum þær aðferðir sem hann beitir við kennslu og við að virkja nemendur í gegn um netið. Þar talaði hann sérstaklega um mikilvægi þess að gera námsefnið aðlaðandi og gagnvirkt. Einar Hreinsson, gæðastjóri Háskólans í Reykjavík (HR) fjallaði um þær aðferðir sem HR nýtir til þess að tryggja gæði stafrænnar kennslu og sýndi gestum kerfið sem notað er í HR. Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri (HA), sendi síðan erindi norðan frá Akureyri þar sem hún kynnti fyrirkomulag og helstu áskoranir og kosti við fjarnám í HA. Eftir það voru umræður um stafræna kennslu og mikilvægi hennar, þar sem fram kom mikil jákvæðni og vilji til innleiðingar og framfara.
Málstofa á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar: Hreyfanleiki fatlaðra stúdenta.
LÍS tóku þátt í málstofu á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar þann 15. nóvember en markmið málþingsins var að koma af stað umræðu um hvernig mætti auka möguleika og tækifæri fatlaðs fólks til háskólanáms erlendis í ljósi nýrrar skýrslu um hreyfanleika fatlaðra stúdenta.
LÍS tóku þátt í málstofu á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar þann 15. nóvember en markmið málþingsins var að koma af stað umræðu um hvernig mætti auka möguleika og tækifæri fatlaðs fólks til háskólanáms erlendis í ljósi nýrrar skýrslu um hreyfanleika fatlaðra stúdenta. Norræna velferðarmiðstöðin er stofnun sem fellur undir Norrænu ráðherranefndina en hlutverk þess er að auka gæði í félagsmálageiranum á Norðurlöndunum með rannsóknum, þróunarstarfi, uppbyggingu tengslaneta og alþjóðlegu samstarfi. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður LÍS, fór með kynningu á áherslum LÍS úr alþjóðastefnu samtakanna sem og áherslum NOM, samstarfsneti stúdenta á Norðurlöndum, og ESU, Evrópusamtökum stúdenta. Málþingið er hluti af framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norrænt samstarf um málefni fatlaðs fólks sem spannar tímabilið 2018-2022.