Fyrsti fundur NAIS
Í október 2017 varð til vísir að samstarfsneti á milli LÍS - Landssamtaka íslenskra stúdenta, MFS - Landssamtaka færeyskra stúdenta, Ili ili - Landssamtaka grænlenskra stúdenta og Avalak - Samtaka grænlenskra stúdenta í Danmörku. Þetta var upphafið að NAIS - The North-Atlantic Islands’ Student cooperation.
Í október 2017 varð til vísir að samstarfsneti á milli LÍS - Landssamtaka íslenskra stúdenta, MFS - Landssamtaka færeyskra stúdenta, Ili ili - Landssamtaka grænlenskra stúdenta og Avalak - Samtaka grænlenskra stúdenta í Danmörku. Þetta var upphafið að NAIS - The North-Atlantic Islands’ Student cooperation. Markmið samstarfsins er að einbeita sér að sértækum málefnum og sameiginlegum hagsmunum stúdenta sem fyrrnefnd samtök standa vörð um.
Dagana 24.-28. janúar 2019 fór fram fyrsti formlegi NAIS fundurinn í Reykjavík. Umræðuefni fundarins var gæðamál og var yfirheiti þess ,,Let’s talk about quality’’. LÍS tóku á móti átta alþjóðlegum gestum, fjórum stúdentafulltrúum frá Grænlandi og fjórum frá Danmörku.
Fulltrúar NAIS fundarins fengu innsýn inn í gæðamál íslensks háskólakerfis frá hagaðilum og íslenskum stúdentum. Fulltrúar MFS, Ili ili og Avalak kynntu sömuleiðis hvernig gæðamálum er háttað í þeirra heimalandi og samtökum, og voru aðal hindranir og framtíðarsýn gæðamála ræddar.
LÍS héldu utan um skipulag vinnustofa og var tilgangur þeirra að móta sameiginlega framtíðarsýn fyrir NAIS. Út frá niðurstöðum vinnustofanna var ákveðið að skrifa handbók sem myndi skýra frá uppbyggingu og tilgangi samstarfsnetsins og einnig sameiginlega yfirlýsingu um mikilvægi gæðamála.
Við gerð handbókarinnar var tekin sú ákvörðun að hver samtök þurfi að tilnefna fulltrúa sem mun sitja í stjórn NAIS og sinna ábyrgðarhlutverki fyrir sín samtök innan samstarfsnetsins. Þeir fulltrúar eru skyldugir til þess að funda í gegn um fjarfundarbúnað einu sinni í mánuði og upplýsa aðra meðlimi NAIS um stöðu mála innann sinna samtaka.
Fulltrúar NAIS sem sóttu fundinn 24.-28. janúar 2019.
NOM, sem er mikilvægur samskipta- og samráðsvettvangur fyrir landssamtök stúdenta á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum, verður næst haldið í apríl í Danmörku og ætla fulltrúar NAIS að halda stöðufund í framhaldi af NOM þar sem handbókin verður samþykkt.
Næsti fundur NAIS mun fara fram í Færeyjum í október 2019. Umræðuefni fundarins verður fjarnám og ætla MFS að standa fyrir vinnustofum um þátttöku stúdenta innan stúdentahreyfinga.
LÍS hlakka til áframhaldandi samstarfs.
Vilt þú vera með? Opið fyrir framboð til framkvæmdastjórnar LÍS
Opnað hefur verið fyrir framboð til embætta framkvæmdastjórnar LÍS fyrir starfsárið 2019-2020. Framboð skulu berast á kjorstjorn@studentar.is fyrir kl 23:50 þann 15. mars n.k.. Framboðum skulu fylgja kynningarbréf og ferilskrá frambjóðenda. Kosningar til framkvæmdastjórnar eiga sér stað á landsþingi LÍS á Háskólanum á Bifröst helgina 29.-31. mars n.k..
Opnað hefur verið fyrir framboð til embætta framkvæmdastjórnar LÍS fyrir starfsárið 2019-2020. Framboð skulu berast á kjorstjorn@studentar.is fyrir kl 23:50 þann 15. mars n.k.. Framboðum skulu fylgja kynningarbréf og ferilskrá frambjóðenda. Kosningar til framkvæmdastjórnar eiga sér stað á landsþingi LÍS á Háskólanum á Bifröst helgina 29.-31. mars n.k..
Lýsing á framkvæmdastjórn og embættum úr lögum LÍS:
18.gr. Skipun framkvæmdastjórnar
Í framkvæmdastjórn sitja formaður, varaformaður, ritari, fjármálastjóri, alþjóðaforseti, gæðastjóri, markaðsstjóri og jafnréttisfulltrúi sem kosnir eru í embætti á landsþingi, sbr. 49. gr. Framkvæmdastjórn sækir umboð sitt til fulltrúaráðs
19.gr. Hlutverk og skyldur framkvæmdastjórnar
Framkvæmdastjórn stjórnar daglegu starfi samtakanna í samræmi við lög þessi, stefnur og samþykktir samtakanna. Þá tekur framkvæmdastjórn að sér önnur tilfallandi verkefni er lúta að hagsmunum stúdenta.
20.gr. Skyldur og réttindi fulltrúa
Fulltrúar í framkvæmdastjórn bera ábyrgð á miðlun upplýsinga til fulltrúaráðs. Við atkvæðagreiðslu á fundum framkvæmdastjórnar hefur hver fulltrúi eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða.
Fulltrúar hafa rétt til setu, málfrelsi og tillögurétt á fundum fulltrúaráðs og landsþingi.
21. gr. Formaður LÍS
Formaður LÍS er formaður framkvæmdastjórnar og fulltrúaráðs LÍS.
Hlutverk formanns er að:
Boða framkvæmdastjórnar- og fulltrúaráðsfundi, leggja fram dagskrá og stýra fundum.
Koma fram fyrir hönd félagsins og vera málsvari þess á opinberum vettvangi.
Vera ábyrgur fyrir miðlun upplýsinga til fulltrúa og varamanna í fulltrúaráði um alla starfsemi LÍS.
Gæta jafnt að hagsmunum allra aðildarfélaga og gæta hlutleysis í hvívetna.
Formaður hefur ekki atkvæðisrétt á fundum fulltrúaráðs nema að atkvæði falla að jöfnu.
Fulltrúaráð ákvarðar starfs- og launakjör formanns.
22. gr. Alþjóðaforseti
Alþjóðaforseti hefur umsjón með alþjóðastarfi, samskiptum við stúdentasamtök annarra landa og regnhlífasamtök stúdenta í Evrópu og víðar. Alþjóðaforseti er ábyrgður fyrir og sér um þátttöku íslenskra stúdenta á alþjóðlegum fundum og ráðstefnum. Alþjóðaforseti skal upplýsa fulltrúaráð og framkvæmdastjórn um alþjóðastarf samtakanna. Alþjóðaforseti skal gæta þess að alþjóðastefnu samtakanna sé fylgt. Alþjóðaforseti er yfir alþjóðanefnd.
23. gr. Gæðastjóri
Gæðastjóri ber ábyrgð á því að þekking innan samtakanna á gæðamálum sé fullnægjandi. Þá er hlutverk gæðastjóra að efla þekkingu og áhuga hins almenna háskólanema á gæðamálum. Gæðastjóri er tengiliður Gæðaráðs íslenskra háskóla við samtökin. Gæðastjóri skal gæta þess að gæðastefnu samtakanna sé fylgt. Gæðastjóri er yfir gæðanefnd.
24.gr .Varaformaður
Varaformaður skal sinna formennsku í fjarveru formanns. Varaformaður skal aðstoða formann við gerð fundardagskrár. Varaformaður hefur yfirumsjón með lagabreytingum samtakanna og fer fyrir lagabreytingarnefnd. Lagabreytinganefnd skal endurskoða lög samtakanna ár hvert.
25.gr. Fjármálastjóri
Fjármálastjóri skal hafa yfirumsjón með fjármálum samtakanna. Fjármálastjóri ber ábyrgð á því að greiða þau gjöld er samtökunum ber að greiða og innheimta kröfur. Fjármálastjóri skal sjá um gerð fjárhagsáætlunar í upphafi starfsárs og leggja fyrir fulltrúaráð til samþykktar. Fjármálastjóri hefur prókúru fyrir reikningum samtakanna. Fjármálastjóri skal sjá til þess að ársreikningur sé gerður, kynna hann á landsþingi og bera hann upp til samþykktar. Fjármálastjóri er ábyrgur fyrir fjáröflun og hefur umsjón með gerð styrktar- og viðskiptasamninga. Fjármálastjóri er yfir fjármálanefnd.
26.gr. Ritari
Ritari LÍS skal skrá fundargerðir fyrir hvern framkvæmdastjórnarfund, á vinnudögum og vinnuþingum stjórnar. Ritari skal halda utan um mætingu stjórnarmanna á fundi og ber ábyrgð á varðveislu og vistun fundargagna samtakanna. Þá hefur ritari jafnframt umsjón með sameiginlegum gögnum samtakanna – að á þeim sé gott skipulag og hægt að finna öll þau gögn er samtökin varða.
27.gr. Markaðsstjóri
Markaðsstjóri sér um að koma samtökunum á framfæri og skal semja markaðsáætlun í upphafi starfsárs. Markaðsstjóri skal vekja athygli á LÍS í samfélaginu, þá sérstaklega meðal framhalds- og háskólanema. Markaðsstjóri ber ábyrgð á útgáfu LÍS svo sem á heimasíðu, samfélagsmiðlum og prenti. Markaðsstjóri sér um viðburði sem haldnir eru á vegum samtakanna. Markaðsstjóri er yfir markaðsnefnd.
28.gr. Jafnréttisfulltrúi
Jafnréttisfulltrúi skal gæta þess að jafnrétti ríki innan samtakanna. Hann skal leitast við að tryggja öllum stúdentum jafnan rétt, jafna stöðu og leggja ríka áherslu á að allir samfélagsþegnar búi við jafnrétti til náms. Jafnréttisfulltrúi skal sjá til þess að jafnréttisstefnu samtakanna sé fylgt. Jafnréttisfulltrúi er yfir jafnréttisnefnd.
Nánari upplýsingar veitir Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður LÍS á elsa@studentar.is.
Betra LÍN strax - stúdentar þurfa líka að lifa af
LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta hafa uppá síðkastið gengið fram í herferð um eitt helsta sameiginlega baráttumál stúdenta: LÍN - Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kröfur stúdenta eru skýrar og ganga út á aukna framfærslu og hækkað frítekjumark.
LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta hafa uppá síðkastið gengið fram í herferð um eitt helsta sameiginlega baráttumál stúdenta: LÍN - Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kröfur stúdenta eru skýrar og ganga út á aukna framfærslu og hækkað frítekjumark. Þessar kröfur byggja á því að sjóðurinn þjóni sínu upprunalega hlutverki sem félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir jafnt aðgengi að námi óháð efnahag. LÍN þjónar því miður ekki lengur þessu hlutverki og stúdentar hafa fyrir vikið þurft að grípa til annarra ráða við að framfleyta sér.
Stúdentar fá lánað frá LÍN fyrir 96% af reiknaðri framfærsluþörf sinni. Þetta þýðir að stúdent í leigu- eða eigin húsnæði fær um 184 þúsund krónur á mánuði. Framfærsla stúdenta er tæplega 100 þúsund krónum lægri en grunnatvinnuleysisbætur og um 120 þúsund krónum lægri en lágmarkslaun. Þar sem einungis er lánað fyrir níu mánuðum á ári og ekki fullri framfærslu er gert ráð fyrir því að stúdentar vinni sér til tekna til að brúa bilið og framfleyta sér yfir sumarmánuðina. Þar kemur frítekjumarkið til sögunnar, stúdentar geta þénað 930 þúsund krónur á ári, fyrir skatt, án þess að framfærslulán þeirra skerðist. Fari innkoman hins vegar yfir þá upphæð þá skerðist hver króna sem LÍN lánar um 45% fyrir hverja krónu sem stúdentinn vinnur sér inn umfram frítekjumarkið.
Þetta eru réttmætar kröfur og það er ánægjulegt að heyra að bæði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir sem og stjórnarformaður LÍN, Eygló Harðardóttir vilji koma til móts við stúdenta. Það sem vonbrigðum veldur er tregi til tryggingar um þessar breytingar. Það er auðvelt að halda aftur af breytingum á þeim grundvelli að ekki sé svigrúm til hækkana, en það er augljóst á þeim afgangi sem Lánasjóðurinn skilar á ársgrundvelli, sem hleypur á milljörðum að svigrúmið er til staðar og þess vegna er óumflýjanlegt að velta því fyrir sér hvers vegna hinn svokallaði rammi til breytinga þarf að vera jafn þröngur og sagt er. Það er líka augljóst á mikilli hlutfallslegri fækkun lánþega, sem er um þriðjungur á meðan að háskólanemum fækkar um minna en 5%, að stúdentar gera sér grein fyrir því að sjóðurinn starfar ekki lengur í þeirra þágu. Slík tölfræði ætti að valda þeim sem hafa ákvörðunarvaldið og ábyrgðina áhyggjum.
Það er nauðsynlegt að sjá þessar breytingar ganga fram í dag og stúdentar eru ekki tilbúnir til þess að bíða eftir því að nýtt lánasjóðskerfi líti dagsins ljós. Reynslan hefur ekki verið gjöful hvað breytingar á lögum LÍN varðar og þess vegna er mikilvægt að grípa tækifærið sem nú gefst með nýjum úthlutunarreglum. Það er pólitísk ákvörðun að rétta kjör stúdenta í samræmi við aðra samfélagshópa, eða láta þá áfram sitja eftir með óásættanleg kjör.
LÍS krefjast þess að betra LÍN líti dagsins ljós strax. Stúdentar eiga að mega þrífast en ekki neyðast til þess að þrauka í gegnum námsárin. Þeir eiga að geta bæði lært og lifað á meðan námi stendur. Þegar persónulegur vöxtur, tækifæri til þess að efla kunnáttu, visku og framlag til sívaxandi og fjölbreytilegs samfélags eiga að vera í forgrunni, ekki baráttan við að lifa af.
Þessi grein er hluti af greinaröð herferðar Landssamtaka íslenskra stúdenta um bættan
Lánasjóð íslenskra námsmanna. Berjumst saman fyrir #betraLÍN
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Formaður LÍS
LÍN - Besta lánasjóðskerfið á Norðurlöndunum
Íslenskir stúdentar eru nokkuð sérstakur hópur. Ástæða þess er sú að samsetning okkar er nokkuð frábrugðin því sem gengur og gerist. Eurostudent könnunin frá árinu 2018 hefur að geyma mikilvæg gögn sem varpa ljósi á það sem gerir íslenska stúdenta nokkuð frábrugðna öðrum. Það eru þó nokkur atriði sem ég hef sérstakar áhyggjur af, en ég trúi því að bætt lánasjóðskerfi myndi taka á þeim.
Íslenskir stúdentar eru nokkuð sérstakur hópur. Ástæða þess er sú að samsetning okkar er nokkuð frábrugðin því sem gengur og gerist. Eurostudent könnunin frá árinu 2018 hefur að geyma mikilvæg gögn sem varpa ljósi á það sem gerir íslenska stúdenta nokkuð frábrugðna öðrum. Það eru þó nokkur atriði sem ég hef sérstakar áhyggjur af, en ég trúi því að bætt lánasjóðskerfi myndi taka á þeim.
Það er áhyggjuefni hve margir stúdentar raunverulega vinna samhliða námi sínu, fullt háskólanám er full vinna. Um 71% svarenda íslenskra stúdenta í könnuninni segjast vinna til þess eins að hafa efni á háskólanámi sínu. Þá treysta íslenskir stúdentar lítið á tekjur frá námslánum eða styrkjum miðað við stúdenta á Norðurlöndunum.
Kennarar í háskólum gagnrýna það gjarnan, eðlilega, að stúdentar vinni mikið samhliða námi. Það virðist þó ekki bitna á þeim tíma sem stúdentar verja í nám sitt. Í Eurostudent könnuninni kemur fram að íslenskir stúdentar verja meiri tíma í nám utan kennslu og við launuð störf en nemendur annarra þjóða, þrátt fyrir að svipaður tími fari í skipulagðar kennslustundir. Þetta er athyglisvert, og má velta því fyrir sér hvort að íslenskir stúdentar hafi almennt fleiri tíma í sólarhringnum en aðrir stúdentar?
Hvernig gengur þetta upp? Er virkilega gerlegt að vera í fullu háskólanámi og vinnu samhliða því? Er þess ekki krafist að stúdentar mæti í kennslustundir? Fjarnám sem háskólar bjóða upp á gerir þetta púsluspil gerlegt. Háskólinn á Akureyri býður upp á sveigjanlegt nám og hefur námsfyrirkomulagið notið mikilla vinsælda síðustu ár. Lykiltölur HA frá árinu 2018 sýna að af 2.389 stúdentum sem stunda nám við háskólann, eru 1.342 stúdentar skráðir í fjarnám. Reynslan sýnir að margir skrá sig í fjarnám til þess að geta púslað öllu saman, vinnu, fjölskyldulífi og námi. Þá er allt nám við háskólann orðið sveigjanlegt og því má gera ráð fyrir því að hluti þeirra stúdenta sem skráðir eru í staðarnám mæti þó ekki í kennslustundir innan veggja háskólans á hverjum degi og séu að sinna öðrum störfum.
Þrátt fyrir að sveigjanlega námið geri það að verkum að púsluspilið gangi upp þýðir það þó ekki að leikurinn gangi áfallalaust fyrir sig. Kröfurnar eru nefnilega ekkert minni þegar kemur að sveigjanlegu námi. Ef eitthvað er, eru kröfurnar meiri þar sem að námsfyrirkomulagið krefst agaðra vinnubragða, sjálfstæðis og skipulags. Þetta púsluspil, fullt háskólanám, vinna, félagslíf, félagsstörf og allt annað sem þarf að púsla saman, hefur áhrif. Púsluspilið getur haft áhrif á námsárangur stúdenta og getur orðið til þess að stúdentar ljúki námi sínu á lengri tíma en ætlað er. Þá hefur vinna samhliða fullu háskólanámi áhrif á álag og andlega heilsu stúdenta, sem er áhyggjuefni. Það er sláandi að 15% íslenskra svarenda í Eurostudent könnuninni glími við andleg veikindi, en meðaltalið er 4% í öðrum Eurostudent löndum.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði á Alþingi 24. janúar síðastliðinn að hækka eigi bæði framfærslu LÍN og frítekjumarkið en það er akkúrat það sem stúdentahreyfingarnar hafa endalaust verið að berjast fyrir. Þá sagði Lilja jafnframt ,,ég get lofað Alþingi því að við munum fá eitt besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum“. Það eru afar ánægjuleg tíðindi og verði það raunin, geta íslenskir stúdentar vonandi loks farið að treysta á LÍN. Besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum myndi gera það að verkum að stúdentar þyrftu ekki að vinna samhliða námi til þess að fjármagna nám sitt, í eins ríkum mæli og raunin er í dag. Þá mun besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum væntanlega hafa þær afleiðingar að stúdentar klári nám sitt frekar á settum tíma. Og mikilvægast af öllu, það mun hafa jákvæðar afleiðingar á andlega heilsu stúdenta sem munu geta treyst á LÍN í stað þess að þurfa að púsla fullu háskólanámi og vinnu saman, með álaginu sem því fylgir.
Sólveig María Árnadóttir
Formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri
Raunhæfar kröfur í vonlausu kerfi
Enginn sagði að námsárin ættu að vera auðveld. Þau geta verið erfið, krefjandi og tímafrek en þau eiga líka að vera skemmtileg. Veita okkur innblástur. Við menntum okkur til að miðla til samfélagsins með þekkingu okkar. Reynum að gefa til baka. Við borgum meira að segja til baka. Borgum Lánasjóði íslenskra námsmanna til baka fjárhæðina sem hann lánarokkur á meðan á náminu stendur.
Enginn sagði að námsárin ættu að vera auðveld. Þau geta verið erfið, krefjandi og tímafrek en þau eiga líka að vera skemmtileg. Veita okkur innblástur. Við menntum okkur til að miðla til samfélagsins með þekkingu okkar. Reynum að gefa til baka. Við borgum meira að segja til baka. Borgum Lánasjóði íslenskra námsmanna til baka fjárhæðina sem hann lánarokkur á meðan á náminu stendur.
Grunnframfærsla námslána hjá einstaklingi í leigu- eða eigin húsnæði er 184.806 krónur á mánuði. Þar af er gert ráð fyrir 75.276 kr í húsnæðiskostnað. Þess má geta að leiguverð á stúdentagörðum er í flestum tilfellum hærri en sú upphæð auk þess sem Félagsstofnun stúdenta getur einungis þjónustað um 10% nemenda við Háskóla Íslands. Þegar áætlaður húsnæðiskostnaður LÍN er dreginn frá stendur að hámarki eftir 109.530 kr fyrir stúdent til að framfleyta sér út mánuðinn að því gefnu að viðkomandi hafi ekki farið yfir frítekjumarkið.
Frítekjumark námslána er 930.000 á ári fyrir skatt, og hefur staðið í stað frá 2014, til samanburðar hafa laun í landinu hækkað um 43% frá janúar þess árs. Af einhverri ástæðu er sú upphæð sem stúdentar fá að láni frá LÍN til þess að framfleyta sér mun lægri en tekjur og bætur annarra samfélagshópa sem verst hafa það í þjóðfélaginu. Grunnatvinnuleysisbætur eru 270.000 krónur á mánuði og lágmarkslaun eru 300.000 krónur á mánuði.
Þegar stúdent vinnur með náminu til að reyna að hífa sig upp í lágmarkstekjur en þénar umfram frítekjumark, skerðist sú framfærsla sem hann fær að láni frá LÍN um 45 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem hann vinnur sér inn. Þetta þýðir að stúdent sem vinnur í þrjá mánuði að sumri til, má ekki hafa hærri laun en 310.000 kr. á mánuði vilji sá einstaklingur forðast að hljóta skerðingu af framfærslu vegna frítekjumarksins. Ætli stúdent sér að vinna með námi er hann því tilneyddur til að taka á sig áðurnefnda skerðingu.
LÍN lánar einungis fyrir 9 mánuðum af árinu og er því gert ráð fyrir að þær tekjur sem stúdent nær að vinna sér inn yfir sumartíma geti nýst til að brúa bilið yfir vetrartímann. Þó virðist umræðan aldrei taka tillit til þess að þær tekjur sem stúdentar ná að afla yfir sumarið þurfa einnig að nýtast þeim til framfærslu á þeim tíma. Það hlýtur því að teljast sérkennileg afstaða að gera ráð fyrir því að stúdentar séu til þess búnir að geta lagt þann pening til hliðar sem þeir vinna sér inn yfir sumartímann þar sem þeir þurfa í versta falli að geta sinnt sínum brýnustu lífs nauðsynjum yfir þá mánuði sem sjóðurinn lánar ekki fyrir framfærslu.
Í óbreyttu kerfi fara stúdentahreyfingarnar fram á að frítekjumark verði hækkað upp í 1.330.000 hið minnsta en breytingin jafngildir einungis hækkun nafnlauna frá síðustu hækkun frítekjumarks árið 2014. Auk þess er farið fram á að skerðingarhlutfallið verði lækkað niður í 35% úr 45% og að framfærslan sé hækkuð. Kröfur stúdenta um hækkun frítekjumarks og hærri framfærslu eru því langt frá því að vera óraunsæjar, hvað þá ef litið er til stöðu og krafna annarra hópa í þjóðfélaginu.
Höfundur er lánasjóðsfulltrúi SHÍ
Þessi grein er hluti af greinaröð herferðar Landssamtaka íslenskra stúdenta um bættan Lánasjóð íslenskra námsmanna. Berjumst saman fyrir #betraLÍN