Kick-off vinnuþing LÍS

Annar fundur framkvæmdastjórnar fór fram 20. júlí. Á dagskrá voru meðal annars viðburður LÍS á fundi fólksins, LÝSA, og þátttaka stúdenta við dagskrárgerð fullveldishátíðarinnar í samstarfi við Kolbrúnu Halldórsdóttur, verkefnisstjóra fullveldishátíðarinnar hjá forsætisráðuneytinu. Á LÝSA munu samtökin stýra pallborðsumræðum en umræðuefnið verður Menntastefna til 2030 með áherslu á háskólastigið. LÍS vilja leggja áherslu á mikilvægi þess að samtökin, og allir hagsmunaaðilar innan háskólakerfisins, taki virkan þátt í vinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að menntastefnu en að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, er sú vinna hafin innan ráðuneytisins. Verkefni framkvæmdastjórnar fyrir næsta starfsár eru fjölmörg og til þess að vinnan verði sem skilvirkust ákvað framkvæmdastjórn að ráðast í stefnumótun með Kick-off vinnuþingi dagana 10. - 13. ágúst.

Kick-off vinnuþing LÍS hófst með framkvæmdastjórnarfundi þann 10. ágúst. Á dagskrá voru meðal annars þátttaka LÍS á sumarþingi DSF, dönsku stúdentasamtakanna, og fyrirhugaður fundur samtakanna í velferðarráðuneytið þar sem ráðstefna um möguleg áhrif breyttrar heimsmyndar á náms- og atvinnutækifæri ungs fólks verður til umræðu. Dagana 11. og 12. ágúst fór fram stefnumótun og undirbúningsvinna þar sem verkefni helstu málaflokka voru rædd. Mörg spennandi verkefni eru á döfinni til að mynda gerð jafnréttisstefnu, ráðstefna um gæðamál í október og skipulag fullveldishátíðar stúdenta.

Meðlimir framkvæmdastjórnar tóku sér pásu frá stefnumótun þann 11. ágúst til þess að ganga í gleðigöngunni ásamt stúdentahreyfingunum innan háskóla Íslands og Q - Félagi hinsegin stúdenta. Samstaðan og baráttuandinn var mikill og á það að vera öllum ljóst að háskóli er fyrir alla.  

Previous
Previous

Fulltrúar LÍS á sumarþingi Landssamtaka danskra stúdenta

Next
Next

Gleðilega hinsegin daga!