Fulltrúar LÍS á sumarþingi Landssamtaka danskra stúdenta

Dagana 2.-5. ágúst buðu DSF, Landssamtök danskra stúdenta fulltrúum LÍS á Sumarþing samtakanna annað árið í röð. Salka Sigurðardóttir alþjóðaforseti, Teitur varaformaður og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir formaður sóttu Sumarþingið fyrir hönd LÍS.

Fulltrúar LÍS á þinginu, Teitur Erlingsson, Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og Salka Sigurðardóttir

Fulltrúar LÍS á þinginu, Teitur Erlingsson, Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og Salka Sigurðardóttir

Fulltrúar héldu örkynningu sem snéri að sögu LÍS og breytingu á skipulagi framkvæmdastjórnar og fulltrúaráðs. Þinggestir fengu innsýn inn í hvernig skrifstofa samtakanna er skipuð og sagt frá sögulegum breytingum á skrifstofunni, en á komandi starfsári verður í fyrsta skipti sem LÍS verður með tvo launaða starfsmenn á skrifstofunni. Sagt var frá komandi verkefnum, meðal annars að hafin væri vinna við skipulagningu á pallborðsumræðum á LÝSA um uppbyggingu menntastefnu Íslands til 2030. Einnig var sagt frá fundi sem fulltrúar LÍS sóttu með Studenterhuset og verkefnið Student Refugees. Síðast en ekki síst buðum við öllum þinggestum í fimm ára afmæli LÍS sem verður haldið hátíðlega þann 3. nóvember næstkomandi.

LÍS kom að skipulagningu á vinnustofu með MFS, Landssamtökum færeyskra stúdenta, ILI ILI, Landssamtökum grænlenskra stúdenta og AVALAK, heildarsamtök grænlenskra stúdenta í Danmörku. Vinnustofa bar heitið ,,Hver er staða grænlenskra og íslenskra stúdenta í Danmörku?”. Vinnustofan gekk vonum framar, hópstjórar undirbjuggu umræðuefni sem snéru að hagsmunum sinna stúdenta og voru þátttakendur mjög virkir í umræðum vinnustofanna. Í lok vinnustofunnar kynnti hver og einn hópstjóri niðurstöður umræðnanna sem áttu sér stað í sínum hóp.

Sumarþing DSF var ansi alþjóðlegt í ár þar sem fulltrúum frá eftirtöldum samtökum var boðið: MFS, Landssamtök færeyskra stúdenta, ILI ILI, Landssamtök grænlenskra stúdenta, AVALAK, heildarsamtök grænlenskra stúdenta í Danmörku, LSVb, Landssamtök hollenskra stúdenta, SSU, Landssamtök slóvenskra stúdenta og USI, Landssamtök írskra stúdenta.

Þinggestir fengu örkynningu frá öllum samtökunum um einhversskonar spennandi verkefni sem þau hafa verið eða eru að vinna að. Fulltrúi LSVb hélt kynningu um mjög áhugavert verkefni sem felst í því að halda heimasíðu sem þau kalla Housing Hotline, sjá heimasíðuna þeirra hér. En í gegn um heimasíðuna geta stúdentar lagt inn fyrirspurnir varðandi húsnæðismál, bæði hvað varðar réttindi og framboð. Fulltrúi USI hélt kynningu um herferðina sem þau héldu um afnám fóstureyðingalaga. Hún fjallaði um hvernig USI hafa sínar herferðir, þar talaði hún meðal annars um að þau einblína á að hafa herferðirnar sínar með Trans Inclusive Language og stúdentamiðaðar.

Sumarþing DSF var virkilega vel skipulagt og vel heppnað, þar sem dagskrá var margþætt, til að mynda með kynningum og fjölbreyttum vinnustofum. Það er mikill heiður að vera boðin á ráðstefnu sem slíka og sýnir það á svörtu og hvítu hversu sterkt samband LÍS hafa myndað sér á alþjóðavettvangi.

 

Previous
Previous

LÍS funda með stjórnendum Student Refugees í Danmörku

Next
Next

Kick-off vinnuþing LÍS