Higher Education: Its Relevance to Students and Society

Þann 31. ágúst fór fram ráðstefnan Higher Education: Its Relevance to Students and Society. Ráðstefnan var haldin í Háskólanum í Reykjavík og skipulögð af Gæðaráði íslenskra háskóla ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Stúdentafulltrúar frá Íslandi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Færeyjum

Stúdentafulltrúar frá Íslandi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Færeyjum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt inngangsræðu um gæðamál innan háskólakerfisins með áherslu á menntastefnu til 2030, sem er í bígerð. Eins og kemur fram í gæðastefnu LÍS ætti slík stefna að vera mótuð í góðu samstarfi við stúdenta, háskólana og aðra viðeigandi hagsmunaaðila. 

Fyrir hádegi var rætt um hlutverk háskóla. Háskólar hafa verið miðstöð þekkingar og uppspretta nýsköpunar en nú er ætlast til meira af þeim. Það er ætlast til þess að háskólar teygi anga sína út í samfélagið og hafi áhrif á sitt nærumhverfi með beinum hætti. Ellen Hazelkorn, meðlimur í Gæðaráði íslenskra háskóla frá Dublin Institute of Technology, fjallaði um samfélagslega ábyrgð háskólakerfisins og sagði: “While societal problems are not solely the responsibility of higher education, universities have a responsibility to help solve them.”

Eftir hádegi fór fram pallborð um starfsnám. Hvorki er fjallað um starfsnám á háskólastigi í lögum um háskóla né öðrum settum reglum og áríðandi að svo sé. Slíkar reglur eiga meðal annars að kveða á um ábyrgð háskóla og starfsvettvangs. Hanne Smidt, ráðgjafi hjá European University Association, endaði pallborðið um starfsnám á orðunum “Higher education should not be a lottery” en umræðurnar sem vöknuðu endurspegla að á Íslandi skortir almennilegan ramma utan um starfsnám.

Einnig fór fram pallborð um samfélagslega ábyrgð háskóla. Umræðurnar voru líflegar og var rætt um nýsköpun, samspil háskóla og atvinnulífsins og krafðist fulltrúi stúdenta í pallborðinu, Julian Lu Curlo sem er alþjóðaforseti landssamtaka danskra stúdenta, að háskólar taki fullan þátt í baráttunni gegn loftslagsvánni. 

Seinasti liður dagskránnar samanstóð af pallborði þar sem fulltrúar stúdenta frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Færeyjum sátu. Sonja Björg Jóhannsdóttir, forseti LÍS, sat í pallborðinu fyrir hönd samtakanna. Umræðuefnið var sjónarhorn stúdenta á mikilvægi háskólastigsins. Stúdentar gagnrýndu að á ráðstefnu þar sem samfélags ábyrgð háskóla hafi verið tekin fyrir hafi umhverfismál ekki verið í forgrunni. Þau ræddu einnig mikilvægi þess að háskólar leggi áherslu á ánægju nemenda í námi frekar en að meta gæði háskóla eftir því hvar þau standa í niðurröðun Times Higher Education.  

Previous
Previous

Samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið

Next
Next

Stuðningsyfirlýsing við bréfi jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands um að kynjafræði verði skyldufag í kennaranámi.