Brotin loforð og óskiljanleg viðmið

Enn er það skýlaus krafa stúdenta að grunnframfærsla sem Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN, miði við sé að minnsta kosti 100% af grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarráðuneytisins. Enn er einungis miðað við 96% og því virðist námslánum ekki vera ætlað að mæta grunnþörfum stúdenta. 

Þessi krafa, ásamt öðrum, var einróma samþykkt á fundi fulltrúaráðs Landssamtaka íslenskra stúdenta, LÍS, síðastliðinn þriðjudag. Hún er hluti af kröfulista sem LÍS setja fram vegna úthlutunarreglna LÍN. Tekið skal fram að samtökin standa fyrir 21.000 stúdenta hérlendis sem og íslenska stúdenta á erlendum vettvangi.

LÍS vill sömuleiðis benda á að enn bólar ekkert á starfshópi um endurskoðun á húsnæðisgrunni stúdenta sem þeim var lofaður í fyrra. Þegar framfærsla stúdenta er ákveðin með tilliti til húsnæðiskostnaðar líta úthlutunarreglur LÍN til leigukjara sem bjóðast nánast einungis í stúdentaíbúðum. Það skýtur skökku við þar sem einungis 10% stúdenta búa í slíkum íbúðum. Í úthlutunarreglum verður að miða við raunverulegar aðstæður stúdenta og það er hvorki gert hvað varðar áðurnefnda grunnframfærslu né lán vegna húsnæðis. 

LÍS krefjast þess einnig áfram að skerðingarhlutfall framfærslulána, þegar árstekjur fara umfram frítekjumark, lækki úr 45%, niður í 35% eins og það var áður en því var breytt árið 2014. Einnig vilja LÍS að eftir námshlé megi stúdentar sækja um fimmföldun frítekjumarks eins og áður var, í stað þreföldunar eins og nú er. 

Áherslur stúdenta eru fleiri og skora samtökin á stjórn LÍN og menntamálaráðherra að endurskoða úthlutunarreglurnar fyrir árið 2020-2021 með tilliti til þeirra.

Áherslur+um+úthlutunarreglur+LÍN+2020-2021-1.jpg
Áherslur+um+úthlutunarreglur+LÍN+2020-2021-2.jpg
Previous
Previous

Frambjóðendur til framkvæmdastjórnar LÍS

Next
Next

English translation to LÍS’s policies