Skiptafundur LÍS
Jóhanna Ásgeirsdóttir hefur tekið við keflinu sem nýr forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta fyrir starfsárið 2020-2021. Anna Kristín Jensdóttir hlaut kjör sem varaforseti LÍS á skiptafundi samtakanna og eftirfarandi einstaklingar skipa þar með framkvæmdastjórn LÍS 2020-2021:
Forseti: Jóhanna Ásgeirsdóttir
Varaforseti: Anna Kristín Jensdóttir
Alþjóðafulltrúi: Sylvía Lind Birkiland
Gæðastjóri: India Bríet Böðvarsdóttir Terry
Jafnréttisfulltrúi: Derek T. Allen
Markaðsstjóri: Guðbjartur Karl Reynisson
Ritari: Kolbrún Lára Kjartansdóttir
Jóhanna hóf starfsárið á að ávarpa skiptafund LÍS þann 26. maí 2020 og fór yfir komandi verkefni framkvæmdastjórnar og fulltrúaráðs.
Í ávarpinu kom fram að framkvæmdastjórn og fulltrúaráð munu byrja starfsárið af krafti með áframhaldandi baráttu fyrir atvinnuleysisbótum, bættum geðheilbrigðisúrræðum í kjölfar herferðarinnar „Geðveikt álag“ og með því að halda kröfum stúdenta varðandi frumvarp um Menntasjóð námsmanna á lofti.
Enn er ekki að fullu vitað hverjar afleiðingar heimsfaraldurs COVID-19 og efnahagskreppunnar sem fylgdi verða til lengri tíma. Þó að búið sé að ná tökum á útbreiðslu veirunnar hér á landi, þá er er ennþá fjöldi fólks, bæði á Íslandi og á heimsvísu, að verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum heimsfaraldurs COVID-19. Hluti stúdenta munu standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að hætta í námi vegna fjárhagserfiðleika. Krafa okkar um atvinnuleysisbætur er meðal annars hugsuð til þess að sporna við þeirri þróun, en við verðum að vera viðbúin því að leita frekari lausna og þrýsta á að bæði háskólar og ríkisstjórn styðji vel við stúdenta á komandi misserum. Einnig er spáð að fjöldi fólks mun skrá sig í nám á næstu misserum vegna atvinnuleysis. Samhliða þeirri fjölgun þarf ríkisstjórnin að huga að fjármögnun háskólastigsins svo hægt sé að tryggja gæði náms. Vegna ferðatakmarkanna eru líkur á því að alþjóðlegt samstarf og skiptinám verður með breytti sniði en þar verðum við líka að vera á varðbergi fyrir því að nauðsynlegar varúðarráðstafanir bitni ekki alþjóðlegum nemum, innflytjendum og flóttafólki. Flæði fólks, hugmynda og menningar milli landa er grunnforsenda blómlegs háskólasamfélags.
Einn kjarni samtakanna er þátttaka í loftslagsverkföllunum, en með nýsamþykkri sjálfbærnisstefnu höfum við aukið við okkur verkfæri til þess að leggja hönd á plóg í loftslagsbaráttunni.
Eitt helsta verkefnið forseta yfir næsta starfsár verður skrif velferðarstefnu sem mun byggja á vinnustofum sem áttu sér stað á síðasta landsþingi. LÍS hafa ekki látið kyrrt liggja með að tjá sig um velferðarmál stúdenta hingað til en með skýra sameiginlega stefnu getum við verið enn öflugri og tryggt sæti okkar við borðið.