Stúdentamál í fréttum
Stúdentamál voru mikið í fréttum í dag, LÍS birtu niðurstöður könnunar um atvinnumál stúdenta á tímum COVID-19 og stuttu seinna birti Stúdentaráð Háskóla Íslands einnig tölur úr sömu könnun. Jafnframt fór frumvarp um Menntasjóð námsmanna í 3. umræðu á þingi.
LÍS hafa sent frá sér umsögn og ályktun þar sem fram kemur afstaða stúdenta gagnvart einstökum atriðum frumvarpsins um Menntasjóð námsmanna en helsta breytingin sem hefur átt sér stað á frumvarpinu er að kalli stúdenta eftir vaxtaþaki hefur verið svarað, þó að þakið sé heldur hærra en stúdentar höfðu séð fyrir sér. Atkvæðagreiðsla um frumvarpið á að eiga sér stað á morgun, en verði frumvarpið að lögum vilja stúdentar minna á að vinnan er rétt að hefjast. LÍS mun halda áfram að fylgjast vel með þróun málsins og koma skoðunum stúdenta á framfæri, til þess að nýtt lánasjóðskerfi þjóni hlutverki sínu og bæti raunverulega kjör stúdenta.
Forseti LÍS, Jóhanna Ásgeirsdóttir ræddi við Stöð 2 í dag um hátt hlutfall atvinnuleysis meðal stúdenta sem er um 40% skv. nýlegri könnun LÍS í samstarfi við SHÍ og MRN. Vísir fjallaði einnig niðurstöður könnunarinnar. Stúdentar fagna atvinnuúrræðum ríkisstjórnarinnar en hafa kallað eftir rétt til atvinnuleysisbóta samhliða auknum atvinnumöguleikum. Stúdentar vinna lang flestir með námi og greiða þar með í atvinnuleysistryggingasjóð. Hvers vegna eiga þeir ekki rétt á atvinnuleysistryggingunni þegar enga atvinnu er að fá? Jafnvel þeir sem fá vinnu verða fyrir tekjumissi sem þeim munar um, þar sem sumarstörf hins opinbera eru aðeins til tveggja mánaða, en sumarið er þrír mánuðir.
LÍS óttast að stúdentar sem fá ekki vinnu neyðist til þess að hætti í námi til þess eins að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.