Ályktun LÍS um breytingartillögur allsherjar- og menntamálanefndar á frumvarpi um Menntasjóð námsmanna

Simple Border Health Quote Instagram Post (1).png


Landssamtök íslenskra stúdenta sendu í gær ályktun á alla þingmenn þar sem fram kemur afstaða stúdenta gagnvart breytingartillögum á frumvarpi um Menntasjóð námsmanna. Ályktunin byggir á umsögn LÍS um frumvarpið og herferðinni Fjárfestum í menntun. Jafnframt fór fram fram framhald á 2. umræðu um frumvarpið á Alþingi í gær þar sem vísað var í umsögn og ályktun LÍS.

Ein helsta krafa stúdenta er sú að sett verði þak á vexti námslána og hefur sú krafa náð fram að ganga. Þó áréttar LÍS að vaxtaþakið þurfi að vera nægilega lágt til að skila árangri sem öryggisventill og krefjast því áfram að vaxtaþakið verði 3% á verðtryggðum og 7% á óverðtryggðum lánum, í stað 4% og 9% eins og stendur nú í frumvarpinu.

Í umræðu Alþingis leitaði Silja Dögg Gunnarsdóttir, framsögumaður meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, skýringa á breytingartillögu 3. minnihluta sem snýr að því að festa viðmið um framfærslu við lög frekar en að framfærsla sé skilgreint í úthlutunarreglum á ári hverju. Silja vísar að í greinargerð frumvarpsins þar sem fram kemur að sjóðstjórn hefur hingað til miðað við grunnviðmið neysluviðmiða í ákvörðun framfærslu og spyr hvort það dugi ekki til.

Stúdentar hafa svar við því. Í fyrsta lagi eru grunnviðmið neysluviðmiða einfaldlega of lág. Viðmiðið er langt undir lágmarkslaunum og í engu samhengi við raunverulegan framfærslukostnað hins almenna stúdents. Frumvarpið boðar því engar breytingar á framfærslu og þá raunverulegum kjörum stúdenta ef áfram á að miða við grunnviðmið eins og hefur verið gert síðustu ár. Í öðru lagi telja stúdentar óviðunandi að ákvörðum um upphæð framfærslu liggi alfarið í höndum sjóðstjórnar og óska þess að lagastoð tryggi lágmarks framfærslu. 

Því styður LÍS 1. breytingartillögu 1. og 2. og 3. minni hluta sem festir framfærslu við dæmigert neysluviðmið.

Í ályktuninni eru fleiri breytingartillögur raktar sem samræmast kröfum stúdenta, ásamt kröfum sem ekki enn hafa skilað sér í breytingum. LÍS skorar á þingmenn að grípa tækifærið sem gefst núna til þess að laga frumvarpið að kröfum stúdenta til að það þjóni markmiði sínu og Menntasjóður námsmanna geti með sanni verið kallaður styrktarsjóður. 


Previous
Previous

Atvinnumál og aðstæður námsmanna vegna COVID-19 // Job outlook and well-being of students during COVID-19

Next
Next

Könnun: Velferð og staða stúdenta í heimsfaraldri // Survey: Well-being and status of students in a pandemic