TAKTU ÞÁTT! OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR Í NEFNDIR LÍS
Hefur þú brennandi áhuga á félagsstörfum og hagsmunabaráttu stúdenta? Langar þig til þess að hafa áhrif og eiga möguleikann á að starfa með stúdentum frá öllum háskólum landsins? Lestu þá með!
Landssamtök íslenskra stúdenta auglýsa eftir áhugasömum einstaklingum í þrjár af nefndum samtakanna: Jafnréttisnefnd, gæðanefnd og markaðsnefnd.
HVAÐ ERU LÍS?
Landssamtök íslenskra stúdenta, eða LÍS, voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.
HVERNIG SÆKI ÉG UM?
Opið er fyrir umsóknir frá 2. janúar til og með 13. janúar. Í umsókn skal eftirfarandi koma fram: Hvaða nefnd þú sækir um í, nafn, menntun, reynsla af félagsstörfum og/eða önnur reynsla sem sem gæti nýst ásamt stuttri lýsingu á ástæðu umsóknar. Við hvetjum einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um þær lausu stöður sem í boði eru.
Nánar um nefndir með lausar stöður
Gæðanefnd
Brennur þú fyrir eflingu íslensks háskólaumhverfis? Þá er gæðanefndin fyrir þig. Nefndin starfar náið með fjölbreyttum einstaklingum og stofnunum á landsvísu sem vinna að eflingu gæða háskólanáms svo sem Rannís og Gæðaráði íslenskra háskóla. Skemmtileg verkefni eru á döfinni starfsárið 2020-2021 t.d. endurskoðun á stefnu, verkefni tengt upplýsingaöflun o.fl. Öll verkefni hafa það að markmiði að auka þekkingu á gæðamálum meðal íslenskra stúdenta sem og að efla þátttöku þeirra í gæðastarfi háskólanna. Um er að ræða einstakt tækifæri til að efla gæði háskólanáms á Íslandi. Við óskum eftir einum metnaðarfullum og vinnusömum einstakling í nefndina.
Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Indiu Bríeti Böðvarsdóttur Terry, gæðastjóra LÍS. Netfang: india@studentar.is
Markaðsnefnd
Markaðsnefndin miðar að því að efla sýnileika samtakanna innan íslensks samfélags, hér sérstaklega háskólasamfélagsins. Nefndin heldur utan um vefsíðu samtakanna, samfélagsmiðla og hlaðvarpi, í samvinnu við önnur embætti og nefndir varðandi innihald. Nefndin skipuleggur og framkvæmir tvær markaðsherferðir á hverju ári til þess að vekja athygli á réttindabaráttu stúdenta. Önnur herferðin mun fara af stað í janúar, og er því enn möguleiki á að aðstoða við skipulagningu og framkvæmd seinni herferðarinnar. Einnig ber markaðsnefnd ábyrgð fyrir skipulagningu viðburða samtakanna í samráði við fjármálanefnd. Reynsla og/eða þekking á grafískri hönnun, ritun og/eða samfélagsmiðlum er kostur, en ekki krafa. Laus sæti í nefndinni eru tvö.
Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Sögu Ýri Hjartardóttir, markaðsstjóra LÍS. Netfang: saga@studentar.is
Jafnréttisnefnd
Jafnréttisnefnd heldur utan um verkefni og viðburði LÍS sem tengjast jafnréttismálum. Nefndin ber ábyrgð á því að jafnrétti sé framfylgt í öllum málum og skal vera framkvæmdastjórn LÍS til ráðgjafar í störfum og málefnum stjórnar. Nefndin mun eiga í samráði við jafnréttisnefndir háskólanna og taka þátt í öðrum verkefnum. Laus sæti í nefndinni eru tvö.
Ef þú vilt fleiri upplýsingar getur þú haft samband við Derek T. Allen, jafnréttisfulltrúa LÍS. Netfang: derek@studentar.is