Norður-Evrópskir stúdentafulltrúar sammælast mikilvægi samstöðu, umhverfisvitund og félagslega ábyrgð

Nú fyrr í mánuðinum fór fram 79. samráðsfundur NOM eða Nordisk Ordförande Möte þar sem komu saman fulltrúar landssamtaka stúdenta í Norður Evrópu. Að vana átti LÍS sína fulltrúa á fundinum og voru það Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir, nýkjörin alþjóðafulltrúi, ásamt Sylvíu Lind Birkiland, fráfarandi alþjóðafulltrúa sem sóttu ráðstefnuna.

Sú venja hefur verið höfð á að aðildarfélög NOM skiptist á að skipuleggja viðburði NOM sem alla jafna eru haldnir tvisvar á ári í heimalandi skipuleggjanda. Sú óvenjulega staða kom upp að landssamtök einstnestra stúdenta (EÜL) sem stóðu fyrir samráðsfundi síðastliðins hausts, NOM78, skipulögðu nú sína aðra ráðstefnu í röð en ástæðu þess má rekja til þess að síðasti fundur fór fram rafrænt vegna COVID-19. Það var vonin að aðstæður yrðu þegar betri nú í apríl svo EÜL fengi tækifæri til að að fylgja hefðinni um heimboð. Því miður voru aðstæður í Norður Evrópu ekki metnar fullnægjandi til ferðalaga fyrir fulltrúa aðildarfélaga og var því lendingin að NOM79 yrði einnig haldið rafrænt.

Ráðstefnan spannaði tvo daga að þessu sinni og var yfirskriftin „Environmental Awareness & Social Responsibility.“ Dagskráin var tvískipt en fyrri daginn voru málstofur og vinnustofur helgaðar þeim titli út frá sjónarhorni stúdenta. Á dagskránni mátti meðal annars finna umfjöllun um loftslagsvána og hringrásarhagkerfið þar sem sérfræðingar fræddu fulltrúa um það hvernig örplast og önnur mengun afvöldum óábyrgrar neyslu í okkar umhverfi hefur áhrif á lífríkið allt í kring, ekki síst okkur mannfólkið. Í þessum málaflokki sé heildræn nálgun aðalatriðið, engin ein lausn dugi, standi hún ein, en meðvitund um ástandið sé lykilatriði til framfara. Fulltrúar voru hvattir til að stuðla að endurskoðun námskerfisins í hverju landi fyrir sig og skoða mikilvægi menntunar í átt að aukinni meðvitund sem svo skili sér í framförum. 

Fyrri vinnustofa dagsins fjallaði um órjúfanleg tengsl á milli félagslegrar þróunar og frelsis enda skuli samfélagið taka þarfir hinna fjölbreyttu hópa innan þess fremur en að þrýsta öllum þegnum þess innan fyrirfram ákveðins ramma, enda sé markmiðið að allir geti lagt sitt að mörkum við betrun umhverfis og samfélags. 

Seinni vinnustofan tók svo til umræðu áhrifamátt smáþjóða undir yfirskriftinni: „How small countries can save the world.“ Fulltrúum LÍS þó mikið til efnisins koma enda hefur samfélagsumræðan ósjaldan hér á landi beinst að áhrifamætti smáþjóðarinnar Íslands í hinum ýmsu málefnum, þar með töldu jafnrétti kynjanna, loftslagsmálum og nú nýlega góðum árangri íslensku þjóðarinnar í baráttunni gegn COVID-19. Þrátt fyrir oft á tíðum ótrúlegan áhrifamátt hverrar þjóðar fyrir sig þá sammældust fulltrúar um að bestur árangur gæti einungis nást með góðri samvinnu og samstarfi. Lykilatriði væri að Norður- og Eystrasaltslöndin ynnu saman til að ná ákjósanlegum árangri og deila upplýsingum inn á milli en þannig mætti meðal annars koma í veg fyrir tvíverknað og spekileka (e. brain drain). Þar undirstrikast mikilvægi samráðsvettvanga stúdenta á borð við NOM svo að stúdentar megi styðja hvert annað í baráttunni um loftlagsvánna. Stúdentar ættu ekki að veigra sér við að sýna róttækni: „Stúdentar fara með lykilhlutverk sem vinnuafl framtíðarinnar, nýtum okkur þá staðreynd!“ 

Á dagskrá seinni dagsins var hinn formlegi NOM fundur. Á meðal fundarefna voru fundarefni BM80 eða komandi aðalfundar European Student Union (ESU) en hann fer fram nú dagana 3.-7. maí. Þá var réttilega rætt um núverandi áskorun NOM-samstarfsins í kjölfar heimsfaraldursins og það hvernig megi tryggja áhrifaríkan samstarfsvettvang aðilfarfélagana á milli í nánustu framtíð. Þess ber að nefna að óðum styttist í að LÍS taki við keflinu sem gestgjafi NOM samkvæmt hefðinni sem fjallað er um hér að framan. Síðast tóku LÍS á móti aðildarfélögunum í Reykjavík árið 2017 og munu þau að öllu óbreyttu koma til með að endurtaka leikinn vorið 2022.

Fulltrúar LÍS þakka skipuleggjendum fyrir upplýsandi og vel að staðinni ráðstefnu.

Previous
Previous

Yfirlýsing LÍS um aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 // LÍS’ statement on governmental action in response to COVID-19

Next
Next

Opið fyrir framboð í gæðastjóra LÍS til 18. maí // Candidacy open for Quality Assurance Officer until may 18th