Kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 skal fara fram endurskoðun á lögunum innan þriggja ára frá því þau komu til framkvæmda og niðurstöður endurskoðunarinnar kynntar eigi síðar en á haustþingi 2023. Í ljósi þess að ekki er kveðið á um reglulega endurskoðun þessara laga er ljóst að endurskoðun þessi veitir gríðarlega mikilvægt tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána hér á landi. 

Í bráðabirgðaákvæði þessu er ekki kveðið nánar á um hvernig endurskoðunin skuli fara fram. Er það vilji stúdenta að þetta tækifæri verði nýtt til hins ítrasta og að kerfið í heild sinni verði tekið til ítarlegrar skoðunar og í kjölfarið verði lagt fram nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna á haustþingi 2023.

Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leiti. Þörf er á mikilli vinnu og talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að þetta hlutverk sé uppfyllt. 

 

LÍS leggur fram eftirfarandi sameiginlegar kröfur stúdenta um þær breytingar sem gera þarf á kerfinu og ferlinu framundan. Hér má finna kröfurnar heild í sinni. Kröfurnar snerta á fjölbreyttum þáttum og þar á meðal eftirfarandi:

  1. Námsstyrkur. Stúdentar leggja áherslu á að við styrkveitingu sé horft sé til jafnréttissjónarmiða í víðum skilningi og krefjast breytinga á styrkveitingum á þann hátt að kerfið sé sambærilegt hinum norska lánasjóði þ.e. með 25% niðurfelling í lok hverrar annar og 15% viðbótar niðurfelling við námslok óháð lengd námstíma. Stúdentar gera þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að þau sýni sama metnað og norsk stjórnvöld í fyrirkomulagi námsstyrkja.

    Þá ber að hafa í huga að markmið núverandi styrkjakerfis er að skapa hvata fyrir stúdenta til þess að ljúka námi á tilsettum tíma. Í því ljósi leggur LÍS höfuðáherslu á að stjórnvöld skoði lengd námstíma háskólanema á Íslandi í víðara samhengi og taki tillit til þátta líkt og framfærslu námsfólks og hárrar atvinnuþátttöku stúdenta. Samkvæmt Eurostudent VII vinna 71% háskólanema á Íslandi með námi og er hlutfallið með því hæsta af þeim þjóðum sem taka þátt í könnuninni. Í sömu könnun kemur fram að 72% þeirra nema sem vinna með námi fullyrða að án vinnunar gætu þau ekki verið í námi. Við gerð hvatakerfis er því mikilvægt að unnin er greining á þeim ástæðum sem búa að baki löngum námstíma stúdenta hérlendis og vinna að lausnum út frá niðurstöðum hennar. Sömuleiðis þarf að greina hvaða hópi núverandi hvata- og styrkjakerfi gagnast og skoða í kjölfarið hvort markmið sjóðsins sem félagslegs jöfnunartóls verði betur uppfyllt með öðrum útfærslum

  2. Árleg hækkun námslána verði lögbundin. Stúdentar krefjast þess að ákvæði þess efnis að upphæðir námslána skuli endurskoðaðar til hækkunar árlega, m.t.t. verðlagsbreytinga, þróunar leiguverðs og gengisbreytinga verði bætt við lög um Menntasjóð námsmanna. Í núgildandi lögum er ekkert sem skyldar stjórn Menntasjóðsins eða ráðherra til að bregðast við þegar efnahagsaðstæður breytast til hins verra. Í núverandi efnahagsástandi er slíkt ákvæði nauðsynlegt.

  3. Lægra vaxtaþak. Stúdentar krefjast þess að vaxtaþak bæði verðtryggðra og óverðtryggða námslána frá Menntasjóði námsmanna verði lækkað. Með því að lækka vaxtaþakið á ný er komið í veg fyrir að markaðsáhætta og áhætta vegna affalla falli alfarið á lántaka. Þannig er dregið úr óvissu fyrir lántaka sem stuðlar að því að markmiði sjóðsins um að veita aðgengi að námi án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti sé betur uppfyllt.

    Í dag eru vextir á verðtryggðum lánum frá Menntasjóði námsmanna 2,49% en í október mældist verðbólga 9,4% sem þýðir að raunvextir af verðtryggðum lánum frá Menntasjóði námsmanna eru nú 11,9%. Vextir á óverðtryggðum lánum frá sjóðnum eru aftur á móti 7,13%. LÍS krefst þess að við endurskoðunina verði sérstaklega athugað hvernig hægt sé að bregðast við aðstæðum sem þessum, enda er ekki tækt að vaxtabyrði stúdenta sé eins há og raun ber vitni, það skerðir ekki aðeins aðgengi að námi, heldur má einnig ætla að það dragi úr jafnréttisáhrifum sjóðsins.

  4. Svigrúm vegna fæðingarorlofs. Eins og kerfið er sett upp er engin leið fyrir foreldri í námi til að taka sér orlof til að hlúa að nýfæddu barni. Þar sem skólar eru almennt skipulagðir í önnum gæti foreldri, eftir fæðingarmánuð barns, neyðst til þess að taka tvær núll eininga annir í röð. Slíkur námsárangur er ekki lánshæfur svo ekki er hægt að fá aukið svigrúm til námsloka vegna barneigna eins og framkvæmd sjóðsins hefur verið. 

Kröfur stúdenta voru unnar í samvinnu allra aðildarfélaga LÍS og hafði starfshópur LÍS um menntasjóðmál umsjá með vinnunni. Í starfshópnum sátu Alexandra Ýr van Erven (forseti LÍS), María Sól Antonsdóttir, (lánasjóðsfulltrúi SHÍ), María Nína Gunnarsdóttir (hagsmunafulltrúi SFHR), Nanna Hermannsdóttir (meðstjórnandi SÍNE) og Rebekka Karlsdóttir (forseti SHÍ).

Previous
Previous

Háskólamenntun í hættu

Next
Next

LÍS auglýsa eftir doktorsnema í ráðgjafarnefnd um mat á rannsóknum (REAC) // LÍS are seeking a doctoral student representative for For The Research Evaluation Advisory Committee (REAC)