Umsögn LÍS um reglur um fjárframlög til háskóla
Landssamtökum íslenskra stúdenta hafa borist til umsagnar frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu reglur um fjárframlög til háskóla. Samtökin fagna því að eftir áralanga vinnu skuli nýtt fjárveitingarlíkan brátt líta dagsins ljós enda hefur verið eftir því kallað í langan tíma.
Umsögnina í heild sinni má finna hér og að neðan er snert á nokkrum helstu atriðum:
Reiknilíkanið er stefnumótandi tól stjórnvalda í málefnum háskóla og því vilja stúdentar koma því tryggilega á framfæri að athygli vekur að ekki er lögð áhersla á jafnrétti til náms við val á hvötum í reglum þessum. Jafnrétti til náms er fyrsta stoðin af fimm sem Menntastefna stjórnvalda til ársins 2030 er byggð á. Samtökin taka fyllilega undir það markmið og telja að líkanið í heild sinni ætti að miða að því að tryggja jafnrétti til náms auk þess að tryggja innleiðingu hinna fjögurra stoðanna sem Menntastefnan byggir á.
Ljóst er að háskólasamfélagið í núverandi mynd endurspeglar ekki þverskurð samfélagsins og því þarf reiknilíkanið að stuðla að aukinni félagslegri vídd. Mikilvægt er að skoða þær hindranir sem koma í veg fyrir að einstaklingar stundi nám og með hvaða hætti sé hægt að beita reiknilíkaninu til þess að tryggja jafnt aðgengi. Stúdentar telja það vera grundvallaratriði að reiknilíkanið stuðli að auknu aðgengi að námi og félagslegri vídd innan háskólasamfélagsins. Stúdentar hafa viðrað áhyggjur sínar af því að ef hvatarnir loknar einingar og brautskráningar, standi jafn veigamiklir og gert er ráð fyrir nú, geti það leitt til aukinna aðgangsstýringa en aðgangsstýringar geta dregið verulega úr aðgengi ýmissa hópa að háskólanámi
Það hefur komið fram að markmið þessara reglna sé að skapa hvata fyrir skólana til þess að halda vel utan um nemendur sem ætti að leiða til hærra útskriftarhlutfalls. Í því samhengi hefur verið vísað til reynslu þessara hvata á Norðurlöndunum. Samtökin sjá því ástæðu til þess að minna á að þó þetta markmið sé af hinu góða þá er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að háskólar á Norðurlöndum hafa verið töluvert betur fjármagnaðir en hinir íslensku til margra ára og þ.a.l. betur í stakk búnir til þess að raunverulega nýta hvatana til þess að auka gæði og veita einstaklingsmiðaða nálgun í námi. Því er grundvallarforsenda fyrir þessum hvötum að skólarnir verði fjármagnaðir á par við meðaltal norðurlandanna svo að skólarnir geti raunverulega nýtt sér þá.
Í ljósi þess að jafnrétti til náms er helsta stoðin sem Menntastefna til ársins 2030 byggir á hvetja Landssamtökin íslenskra stúdenta ráðherra háskólamála til að huga sérstaklega að aðgengi að námi og aukinni félagslegri vídd við ákvörðun reglna um fjárframlög. Þá sjá samtökin sérstaka ástæðu til þess að taka fram að ekki er hægt að líta á aðgangsstýringar sem mögulega afleiðingu sem verður einungis í höndum háskólanna enda er reiknilíkanið stefnumótandi tól stjórnvalda og því þarf ráðuneytið að gera á því skýr skil hvernig má tryggja greiðan aðgang að háskólum landsins.
Þá telja stúdentar að hætt sé við því að afleiðing þessara hvata, verði þeir í þessum hlutföllum, gangi gegn upphaflegum markmiðum um að stuðla að auknum gæðum háskólanáms. Ef meirihluti af fjármagni til háskólanna er háður því að nemendur ljúki námsmati getur það leitt til þess að skólarnir séu knúnir til þess að slá af kröfum til stúdenta með það að markmiði að ná nauðsynlegu fjármagni fyrir starfsemi skólanna.
Að lokum taka samtökin undir með skýrsluhöfundum Grænbókar um fjárveitingar til háskóla, mál nr. 5/2020, um að hvatinn í núverandi reiknilíkani sé einsleitur og ýti undir áherslu á magn fremur en gæði. Í ljósi þessa, sem og ofangreinds, telja stúdentar að hverfa þurfi frá áformum um að 40% af heildarfjármagni fylgi loknum einingum og 20% fylgi brautskráningum. Þá yrðu samtals 60% af heildarfjármagni til háskólanna háð því að nemar standist námsmat og verður það að teljast stór partur af heildarfjármögnun háskólanna og hvatinn því orðinn einsleitur á ný. Þá er mikilvægt að huga að áhrifum hvatanna fyrir hvern skóla en á mynd 4 í greinargerð reglnanna má t.d. sjá að Háskólinn á Bifröst sækir 75% fjármagn sitt til kennsluhlutans og skólinn því orðinn verulega háður því að nemendur standist námsmat.
Í greinargerð kemur fram að flokkun námsgreina í reikniflokka er gerð m.t.t. kennsluaðferða, húsnæðisþarfa, sérhæfðum búnaði og áherslu stjórnvalda. Stúdentar taka undir þessa skiptingu að mestu leyti en telja þó að einnig þurfi að taka tillit til fámennra greina við skiptingu í reikniflokka. Í þessu samhengi má til dæmis benda á tungumálanám sem er bóknám og er staðsett í flokki A. Í tungumálanámi þarf þó að gera ráð fyrir færri nemendum á kennara og gagnvirku námi og því eðlilegt að við flokkun sé einnig tekið tillit til slíkra þátta. Stúdentar vilja einnig minna á mikilvægi þess að líta til framþróunar í kennsluháttum en til þess þarf að vera svigrúm innan háskóla til að þróa mismunandi kennsluaðferðir.