Umsögn LÍS vegna vegna frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof,

Umsögn Landssamtaka íslenskra stúdenta vegna frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (afkomuöryggi, meðgönguorlof, vinnutímastytting foreldris).

Landssamtökum íslenskra stúdenta hefur borist til umsagnar frá Velferðarnefnd Alþingis frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Í þessari umsögn verður snert á þeim atriðum er varða stúdenta.

16. grein frumvarps, breytingar á 38. grein laganna

LÍS fagna því að lögð er til hækkun á fæðingarstyrk námsmanna enda ljóst að núverandi upphæð dugar skammt til almennrar framfærslu. Samtökin hafa áður bent á að það skjóti skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu og endurspeglar það ekki það sjónarmið að fullt nám sé álitin full vinna.1 Samtökin fagna sömuleiðis þeirri viðbót sem merkt er c. í 16. grein frumvarpsins. Þar er þó er gerð athugasemd við skilyrði um fullt nám með vísan í þau sjónarmið sem eru rakin hér að neðan.

27. og 28. grein laga nr. 144/2020

Samtökin telja að mikilvægt sé að stíga skrefi lengra og hvetja þau til þess að sömuleiðis verði gerðar breytingar á 27. og 28. grein laga um fæðingar- og foreldraorlof er fjalla um skilyrði og undanþágur fyrir fæðingarstyrk námsmanna. Samkvæmt 27. grein laganna þurfa stúdentar að hafa verið í a.m.k. 75% námi í aðdraganda fæðingu barns til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Því má vera ljóst að gerðar eru miklar kröfur til stúdenta til þess að eiga rétt á fæðingarstyrknum yfirhöfuð og skerðir ákvæðið aðgengi stúdenta að félagslegum réttindum. Setja má spurningarmerki við hvort slík krafa um námsframvindu sé í samræmi þau velferðarsjónarmið sem fæðingarorlofskerfið er byggt á. Hér skal ítrekað að lágmarksnámsframvinda mælir ekki ástundun í námi heldur það hvort stúdentar standist námskröfur námskeiða. Undanþágur fyrir skilyrði um fullt nám, sem fjallað er um í 28. grein laganna, eru of þröngar til þess að þær grípi alla þá sem á styrknum þurfa að halda. Sem dæmi má taka einstakling sem skráður er í 3 10 ECTS kúrsa (fullt nám) og fellur í einum þeirra. Sá hinn sami missir því allan rétt til fæðingarstyrks námsmanna og hlýtur þess í stað fæðingarstyrk fyrir einstakling utan vinnumarkaðar sem er töluvert lægri upphæð. Ákvæðið verður því að teljast ansi íþyngjandi og hafa bæði Landssamtök íslenskra

1 Ályktun á landsþingi LÍS 2023 um stöðu foreldra í námi

1

stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands bent á það2. Fyrirkomulagið er sömuleiðis líklegt til þess að auka kvíða og streitu í aðdraganda fæðingu barns.

Atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta er með því hæsta sem þekkist í samanburðarlöndum en í sjöundu könnun Eurostudent3 kemur fram að 71% íslenskra stúdenta vinna með námi, þar af 29% í yfir 20 tíma á viku. Auk þess kemur fram að 72% þeirra sem vinna fullyrða að án launaðrar vinnu hafi þau ekki efni á því að vera í námi. Í sömu könnun kemur fram að 25% stúdenta eiga í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Þegar litið er til þeirra sem vinna 20 tíma eða fleiri eiga rúmlega 50% í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Það er því ljóst að í núverandi kerfi hefur skortur á stuðningi við námsmenn áhrif á námsframvindu og þar með möguleika á því að hljóta fæðingarstyrk námsmanna.

13. grein frumvarps , breyting á 23. grein laganna

Það að tekjur undir 350.000 krónum séu óskertar er mikilvægt réttlætismál fyrir vinnandi stúdenta. Líkt og var rakið hér að ofan eru fjölmargir stúdentar í hlutastörfum með laun sem mega ekki við skerðingu. Kerfið þarf að taka tillit til raunverulegra aðstæðna stúdenta og í ljósi þess hversu hátt hlutfall stúdenta þurfa að vinna er ekki óeðlilegt að fæðingarorlofskerfið taki tillit til þess þegar stúdentar eru einnig í launaðri vinnu. Sem dæmi má nefna stúdent í 60% námi og 40% starfi og skal hér tekið fram að slíkur einstaklingur er ekki jaðartilvik. Viðkomandi er því samtals í 100% starfi ef náms- og starfshlutfallið er lagt saman. Viðkomandi myndi ekki fá fæðingarstyrk námsmanna en myndi í staðinn fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í samræmi við 40% starfshlutfall en ljóst er að slíkar tekjur mega ekki við skerðingu. 13. grein frumvarpsins er því nauðsynleg fyrir vinnandi stúdenta. Hér skal þó tekið fram að einnig væri hægt að finna útfærslu þar sem fæðingarorlofsgreiðsla stúdenta er reiknuð út frá samanlögðu náms- og starfshlutfalli en það yrði efni í annað ákvæði.

Umsögnina má finna hér.

Previous
Previous

Fulltrúaráðsfundur 7. nóvember

Next
Next

Síðasta ljós­móðirin á Ís­landi…