Landsþing LÍS 2023

Landsþing LÍS verður haldið að Háskólanum á Akureyri daganna 29. mars - 1. apríl. Yfirskrift þingsins verður að þessu sinni Fjölskyldumál stúdenta. Dagskrá þingsins í ár verður í samræmi við yfirskrift þess og munu eiga sér stað fyrirlestrar og vinnustofur tengdar fjölskyldumálum stúdenta og áskorunum sem oft fylgja.

Mætt verður til Akureyrar miðvikudagskvöld og mun vera haldin móttaka fyrir gesti þingsins sama kvöld. Þinghöld standa yfir frá fimmtudagsmorgni og til hádegis á laugardag. Ásamt fyrirlestrum, ávörpum og vinnustofum munu einnig fara fram hefðbundin þingstörf, þar má nefna; lagabreytingar og stefnumótun.

Á landsþingi LÍS koma saman stúdentafulltrúar frá aðildarfélögum LÍS þ.e. allir háskólar landsins sem og fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþing LÍS er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi þar sem gefst færi á að skiptast á skoðunum, rökræða og fá innsýn í baráttumál stúdenta á öðrum vettvöngum.

Dagskrá LÍS er hin glæsilegasta og samanstendur af hinum ýmsu fyrirlestrum og vinnustofum. Landsþing LÍS fær þann heiður að taka á móti frábærum gestafyrirlesurum og mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson Félags- og vinnumarkaðsráðherra ávarpa þingið. Einnig mun hún Þórdís Helga Benediktsdóttir fara með fyrirlestur um fæðingarorlofssjóð svo dæmi má nefna.

Dagskrá landsþings má finna hér að neðan.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Félags- og vinnumarkaðsráðherra

Guðmundur mun fjalla um stefnu stjórnvalda í málefnum foreldra í námi og hvernig stjórnvöld hyggjast beita sér fyrir umbótum á þessum sviði. Bæði fæðingarorlofssjóður og almannatryggingakerfið falla undir málefnasvið hans ráðuneytis og því viðeigandi að heyra hans sýn um stöðu foreldra í háskólanámi.

Þórdís og Kristín

Þórdís Helga Benediktsdóttir og Kristín, forstöðumaður og sérfræðingur Fæðingarorlofssjóðs.

Þær munu fjalla um fæðingarorlofskerfið og þá sérstaklega með tilliti til foreldra í námi. Þær munu m.a. ræða um samspil fæðingarorlofs og fæðingarstyrks og koma með ábendingar um hvaða vandamál stúdentar eru að reka sig á í fæðingarorlofskerfinu.

Elísabet Ýrr Steinarsdóttir

Fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

Í erindinu Fjölskylduvænt Háskólasamfélag verður fjallað um mikilvægi tengsla og tengslamyndunar þar sem áhersla verður á foreldra í háskólanámi. Farið verður yfir hvaða þættir skipta máli í tengslamyndun, áhrif streitu og hvernig foreldrar geta á heilbrigðan hátt fundið jafnvægi milli fjölskyldulífs og náms. Einnig verður fjallað um hugmyndir fjölskyldufræðings um hvernig háskólasamfélagið getur komið á móts við foreldra í námi.

Previous
Previous

Samantekt af vel heppnuðu Landsþingi LÍS 2023

Next
Next

Stúdentar vilja heildarúttekt á áhrifum styttingu framhaldsskólanna