Samantekt af vel heppnuðu Landsþingi LÍS 2023
Landsþing LÍS fór fram á Háskólanum á Akureyri frá 29. mars til 1. apríl. Þema þingsins þetta árið var „Fjölskyldumál stúdenta“. Á dagskrá Landsþings voru fyrirlestrar og vinnustofur tengdar fjölskyldumálum stúdenta og þeim áskorunum sem foreldrar í námi þurfa að upplifa.
Landsþing hófst á miðvikudagskvöldið með skemmtilegri móttöku fyrir gesti þingsins. Landsþingið stóð yfir frá morgni fimmtudags og fram til hádegis á laugardag. Samhliða fyrirlestrum, ávörpum og vinnustofum fóru fram hefðbundin þingstörf eins og lagabreytingar og stefnumótun.
Á Landsþingi LÍS mætast fulltrúar nemendafélaga sem tilheyra LÍS, þ.e. allir háskólar landsins, og einnig fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþing LÍS er stærsti samráðsvettvangur nemenda á Íslandi, þar sem þeim býðst tækifæri til að skiptast á skoðunum, taka þátt í umræðum og fá innsýn í mál stúdenta á öðrum sviðum.
Dagskrá Landsþings LÍS í ár var fjölbreytt og innihélt ýmsa fyrirlestra og vinnustofur. Meðal heiðursgesta á Landsþingi var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra. Hann hélt opnunarávarp þingsins. Guðmundur fjallaði um stefnu stjórnvalda í málefnum foreldra í námi og hvernig stjórnvöld ætla að beita sér fyrir umbótum á þessu sviði. Bæði fæðingarorlofssjóðurinn og almenn tryggingakerfið falla undir hans ráðuneyti, og því var gangnlegt að hlusta á skoðanir hans um stöðu foreldra í háskólanámi
Einnig komu þær Þórdís Helga Benediktsdóttir og Kristín deildastjóri fæðingarorlofssjóðs og fóru þær yfir starfsemi sjóðsins. Þær kynntu ýmis skilyrði fyrir fæðingarorlofi og ýmsa áhrifaþætti sem gætu skert eða framlengt fæðingarolof eða styrk. Einnig fóru þær yfir fæðingarstyrk námsmanna nánar og þær kröfur sem stúdent þarf að upfylla til þess að eiga rétt á honum.
Síðasti gesturinn var Elísabet Ýrr Steinarsdóttir, fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni, sem fjallaði um mikilvægi tengsla og tengslamyndunar í háskólasamfélaginu með áherslu á foreldra í háskólanámi. Í erindinu "Fjölskylduvænt Háskólasamfélag" fór hún yfir þá þætti sem skipta máli í tengslamyndun, áhrif streitu og hvernig foreldrar geta á heilbrigðan hátt fundið jafnvægi milli fjölskyldulífs og náms. Einnig var fjallað um hugmyndir fjölskyldufræðings um hvernig háskólasamfélagið getur komið til móts við foreldra í námi.
Þakkar framkvæmdastjórn þeim kærlega fyrir komuna.
Fyrir utan fyrirlestra og vinnustofur voru tvær stefnur LÍS samþykktar á Landsþingi. Nýsköpunarstefna, sem sköpuð var út frá afrakstri Landsþings 2022 á Hólum, var einróma samþykkt á Landsþingi, en hana má finna hér: https://studentar.is/s/Stefna-Landssamtaka-islenskra-studenta-um-nyskopun-og-rannsoknir-i-islensku-haskolasamfelagi
Sjálfbærnistefna LÍS var einnig kynnt á Landsþinginu en hún hefur verið í endurskoðun hjá Gæðastjóra LÍS, Kolbrúnu Láru ásamt gæðanefnd. Hún var kynnt og einróma samþykkt á Landsþingi og má sjá hana hér: https://studentar.is/s/Samykkt-sjalfbrnistefna-a-landsingi-2020.pdf
Á Landsþingi voru einnig tvær ályktanir kynntar og samþykktar af þinginu. Alexandra Ýr, forseti LÍS kynnti Ályktun Landsþings Landssamtaka íslenskra stúdenta um stöðu foreldra í námi. Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ kynnti Ályktun um framtíð háskólastigsins. Þessar ályktanir voru einróma samþykktar og má sjá þær hér: https://studentar.is/frettir-og-greinar/2023/5/12/lyktun-um-framti-hsklastigsins og hér: https://studentar.is/frettir-og-greinar/2023/5/4/lyktun-um-stu-foreldra-nmi
Á Landsþingi LÍS bárust þrjú framboð í framkvæmdastjórn LÍS. Lilja Margrét Óskarsdóttir bauð sig fram í gæðastjóra samtakanna, Alexandra Ýr van Erven bauð sig fram í forseta samtakanna og S. Maggi Snorrason býður sig fram í varaforseta samtakanna. Þau héldu framboðsræður á Landsþingi og hlutu þau öll einróma kjör á Landsþingi.
Landsþing LÍS er ekki einungis málefnavinna heldur er einnig nóg af skemmtun. Nóg var um hópefli og skemmtilegum leikjum á hótelinu á kvöldin. Þinggestir voru orðnir vel samanþjappaðir eftir skemmtilegt Landsþing. Þinggestir fengu einnig tækifæri að fara í vísindaferð á vegum NFHB og SHA í Skógarböðin og áttu þinggestir góða stund þar saman. Á laugardeginum hélt SHA svo frábæra 10 ára afmælisveislu fyrir LÍS. Framkvæmdarstjórn LÍS þakkar SHA kærlega fyrir skemmtilega veislu.
Landsþing LÍS er mikilvægur viðburður sem hefur þann tilgang að vera samráðsvettvangur stúdenta þar sem þeir geta komið saman og skipst á skoðunum, hugmyndum og umræðum um málefni sem snerta stúdenta. Með fjölbreyttri dagskrá, áhugaverðum fyrirlesurum og vinnustofum, og góðri þátttöku þingfulltrúa, veitir Landsþingið góða aðstöðu til að skapa gagnlegt umhverfi fyrir farsælt og faglegt samráð meðal stúdenta á Íslandi.
Framkvæmdarstjórn þakkar SHA kærlega fyrir góða skipulagningu á frábæru Landsþingi, einnig þakkar hún Helgu Lind Mar fyrir fundarstjórn. Að lokum vill hún þakka öllum þinggestum fyrir góða þátttöku og frábært Landsþing.
Myndir teknar af ebf_photovideo á Facebook og Instagram.