Opið fyrir umsóknir í alþjóðanefnd LÍS
Hvað er alþjóðanefnd?
Alþjóðanefnd LÍS sinnir alþjóðlegum skuldbindingum LÍS, sækir fróðleik til alþjóðlegra stúdenta og færir þann fróðleik heim til Íslands. Nefndin sinnir undirbúningsvinnu og úrvinnslu í kringum alþjóðlega viðburði sem fulltrúar LÍS sækja, þá einna helst á vegum Evrópusamtaka stúdenta (ESU), ásamt því að endurskoða alþjóðastefnu LÍS. Með þátttöku í nefndinni munu meðlimir fá innsýn inn í starf LÍS og ekki síður inn í störf alþjóðlegra stúdentahreyfinga en nefndin sér um að kynna sér og vekja athygli á tækifærum til þátttöku stúdenta í alþjóðlegu stúdentasamstarfi. Nefndin mun í sameiningu móta starf vetrarins undir handleiðslu alþjóðafulltrúa. Laus sæti í nefndinni eru fjögur og leitumst við eftir fjölbreyttum hópi af áhugasömu fólki. Hvers kyns reynsla eða þekking á alþjóðlegri umhverfi er kostur en alls ekki krafa, einungis brennandi áhugi á því að læra nýja hluti!
Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Þóru Margréti Karlsdóttur, alþjóðafulltrúa LÍS. Netfang: thora@studentar.is.
Hæfniskröfur
Að umsækjandi sé í háskólanámi eða að ekki sé meira en ár liðið frá því að hann var stúdent.
Vilji til þess að fylgja stefnumálum og verklagi LÍS.
Vilji til þess að vinna með öðrum nefndarmeðlimum og til þess að leggja sitt af mörkum
Reynsla af starfi innan stúdentahreyfinga háskólanna er æskileg. Reynsla af félagsstarfi utan háskólanna er líka æskileg.
Hvernig sæki ég um?
Opið er fyrir umsóknir frá 27. janúar til og með 3. febrúar. Í umsókn skal koma fram: Nafn, menntun, reynsla af félagsstörfum og/eða önnur reynsla sem gæti nýst og stutt lýsing á ástæðu umsóknar. Við hvetjum einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um þær lausu stöður sem í boði eru. Umsóknir berast á varaforseti@studentar.is.
Hvað eru LÍS?
Landssamtök íslenskra stúdenta, eða LÍS, voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.
Umsóknir og upplýsingar má fá hjá S. Magga Snorrasyni varaforseta samtakanna með því að senda tölvupóst á varaforseti@studentar.is