Ályktun LÍS um aðgengi fóttafólks að háskólanámi

Landssamtök íslenskra stúdenta fagna áherslu stjórnvalda á aukna alþjóðavæðingu í háskóla og vísindastarfi. Er þar vísað til aðgerðar 1.7: Aukin alþjóðavæðing í háskóla- og vísindastarfi í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 sem Alþingi samþykkti í desember síðastliðnum. Í tillögunni segir að gripið verði til aðgerða til að fjölga erlendum nemendum á Íslandi en LÍS telur að skýrari áætlanir skorti til þess að ná því markmiði.

Alþjóðavæðing hefur styrkt tengsl milli einstaklinga, samtaka og stofnana í ólíkum heimshornum og stuðlar þannig að auknum skilningi og hraðari samskiptum milli landa og menningarheima. Þar að auki ber Ísland ábyrgð í samfélagi þjóðanna og ættu stjórnvöld einnig að stefna að markmiði um fjölgun alþjóðlegra nemenda vegna mannúðarsjónarmiða en ljóst er að tækifæri til náms eru ólík eftir búsetu og ríkisfangi. Í því samhengi má sérstaklega nefna fólk á flótta en aldrei hafa fleiri verið á flótta en um þessar mundir en samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna eru nú um 110 milljónir einstaklinga á flótta á heimsvísu. Þessir einstaklingar eru af öllum þjóðfélagsstigum og þar á meðal háskólanemar en fjölmörg dæmi eru um að stúdentar hafa þurft að hætta eða fresta námi um langa hríð vegna þessa. Aðeins um 6% flóttamanna eru í háskólanámi á alþjóðavísu en það er langt undir meðaltali innritunar í háskóla meðal annarra en flóttamanna. 

LÍS hvetur því stjórnvöld sérstaklega til þess að hefja samstarf við  Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR) um viðbótarbrautir (e. Complementary Education pathways for refugees) til þess að koma háskólanemum á flótta inn í nám í öruggum ríkjum. Nú þegar eiga nokkur ríki í Evrópu í slíku samstarfi, t.d. Noregur og Litháen. 

Slíkar viðbótarbrautir eru skilgreindar leiðir fyrir flóttafólk til þess að hefja nám í öruggu ríki og geta leitt til dvalar- og atvinnuleyfis í kjölfarið. Brautirnar tryggja samtímis tækifæri þessa viðkvæma hóps til náms sem og stuðlar að markmiði stjórnvalda um að fjölga erlendum nemum. Slíkar leiðir eru ekki síst mikilvægar fyrir Ísland enda mæta þær áskorunum um skort á sérfræðingum á Íslandi.  

Ályktunina má einnig sjá hér.

Previous
Previous

Fulltrúaráðsfundur 29. janúar

Next
Next

Ársskýrsla 2022-2023