Stúdentar ræða tilgang háskólamenntunar

Stúdentar fjölmenntu á landsþing LÍS síðastliðna helgi en um 50 stúdentar frá öllum háskólum landsins sóttu þingið. Þingið var haldið í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyrir og fór vel um okkar fólk í sveitarsælunni. Á þinginu var kjörið í framkvæmdastjórn komandi starfsárs og mun hún taka við 1. júní næstkomandi. Auk þess var lögð fyrir þingið ný fjölskyldustefna, lagabreytingar, endurskoðun á gæða- og jafnréttisstefnum LÍS og teknar fyrir ályktanir. Samþykkt þingskjöl verða birt á næstu dögum.

Tilgangur háskólamenntunar

Þema þingsins var: Tilgangur háskólamenntunar og voru haldinn fjögur erindi sem nálguðust þemað frá ólíkum áttum. Í kjölfarið tóku þingfulltrúar þátt í hópavinnu um efnið.

Skúla Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor Háskólans á Hólum fjallaði um hlutverk og gæðastarf háskóla andspænis þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir. Hann lagði áherslu á hvernig gott háskólastarf skiptir máli fyrir samfélagið, náttúruna og farsælt mannlíf. Hulda Birna Kjærnsted Baldursdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum iðnaðarins fjallaði um mannauðs- og færniþörf sem SI hefur greint og lagði áherslu á skort á sérfræðingum í STEAM greinum. Einar Hreinsson, konrektor MR, fjallaði um hlutverk háskólakennslu og bar upp vangaveltur um hvort hlutverk háskólakennslu hafi breyst í ljósi nýjustu breytinga á kostnað nemenda við háskólamenntun, fjármögnun kerfisins og niðurstöður helstu rannsókna á þróun framhaldsskólakerfisins og undirbúningi nemenda fyrir háskólanám. Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs RANNÍS hélt erindi um alþjóðavæðingu háskólastarfs og tækifæri á vegum RANNÍS. Hún lagði áherslu á mikilvægu grasrótarrannsókna og fjármönun þeirra.

Í kjölfarið tóku stúdentarnir þátt í spjali við hvern og einn fyrirlesara þar sem tækifæri gafst til þess að kafa á dýptina um hvert og eitt sjónarhorn. Að því loknu tók við hópavinna þar sem þingfulltrúar komu með sína sýn á efni þingsins.

Framkvæmdastjórn

Á þinginu var kosið í framkvæmdastjórn samtakanna fyrir starfsárið 2024-2025. Tekur hún við í byrjun júní en þangað til starfar núverandi framkvæmdastjórn. Lísa Margrét Gunnarsdóttir var kjörin forseti LÍS, Þóra Margrét Karlsdóttir hlaut kjör sem alþjóðafulltrúa, Lilja Margrét Óskarsdóttir var kjörn gæðastjóri og Íris Björk Ágústsdóttir hlaut kjör í stöðu jafnréttisfulltrúa. Við óskum þeim innilega til hamingju með kjörið og hlökku til þess að sjá þau starfa í þágu stúdenta á komandi starfsári.

Auk hefðbundinnar dagskrár voru ýmis mál tekin fyrir. Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar heimsótti þingið og ræddi við fulltrúa stúdenta um stöðuna í háskólamálum og svaraði krefjandi spurningum frá þinginu. Við þökkum henni kærlega fyrir að gefa sér tíma til þess að spjalla við stúdenta um hin ýmsu hagsmunamál.

Á milli stífra fundarhalda gerðu stúdentar sér glaðan dag. Við heimsóttum vísindafjósið á Hvanneyrir, fórum í sund og tókum þátt í skemmtisdagskrá.

Við þökkum öllum sem sóttu þingið kærlega fyrir þeirra framlag og sömuleiðis Landbúnaðarháskólanum fyrir gestrisnina!

Previous
Previous

Fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði

Next
Next

Landsþing LÍS 2024