LÍS og Viska í samstarf

Viska, stéttarfélag sérfræðinga, og Landssamtök íslenskra stúdenta hafa undirritað samstarfssamning. Viska er nýtt stéttarfélag sérfræðinga sem lætur málefni háskólasamfélagsins sig varða og leggur áherslu á fræðslu og þjónustu fyrir háskólanema. Félagið hyggst eiga virkt samtal við hagsmunasamtök íslenskra háskóla á landsvísu og taka þátt í hagsmunabaráttu háskólanema.

Í janúar undirrituðu Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Visku og Alexandra Ýr van Erven forseti LÍS samstarfssamning sem hefur það að markmiði að efla þekkingu háskólanema á kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði og vinna saman að stefnumótun um sameiginleg hagsmuna- og réttindamál.

Starfsfólk Visku og fulltrúar LÍS munu vinna að nánari útfærslu á samstarfinu með það að markmiði að fræðsla og námskeið verði komin í fullan gang í haust. Í framhaldinu verður skoðað hvernig hægt er fjölga leiðum til að styrkja stöðu háskólanema á vinnumarkaði og vinna að undirbúningi fyrir lífið á vinnumarkaði. Kjara- og réttindamál ungs fólks og fyrstu skref á nýjum vinnustað verða meginatriðin í þeirri vinnu.

Það er mikið fagnaðarefni að Viska skuli vilja styðja við bakið á LÍS og þar með efla hagsmunabaráttu stúdenta á landsvísu. Fyrir liggur samningur við BHM og með þessum nýja samningi bætist enn frekari stuðningur við LÍS og samvinna stúdenta- og verkalýðshreyfingarinnar þéttist sagði Alexandra Ýr van Erven forseti LÍS.

Alexandra Ýr, forseti LÍS, og Brynhildur Heiðars- og Ómarsdóttir, formaður Visku, við undirritun samningsins.

Next
Next

86. stjórnarfundur ESU