86. stjórnarfundur ESU

Á dögunum fóru fulltrúar LÍS á stjórnarfund hjá ESU, eða European Students' Union. Stjórnarfundir, eða Board Meeting (BM), eru haldnir tvisvar á ári þar sem starf og stefna ESU er mótuð. Meðal annars er samþykkt starfsáætlun ESU, stefnur, tillögur og yfirlýsingar. Fulltrúar frá öllum 44 aðildarfélögum ESU mæta á fundina, en þessi aðildarfélög koma frá 40 Evrópulöndum. Hvert land hefur tvö atkvæði. Á stjórnarfundum að vori er einnig kosið í nýja framkvæmdarstjórn ESU, en hún sér um dagleg störf félagsins og sér um að framfylgja samþykktum ákvörðunum og stefnum. Þessi stjórnarfundur var 86. fundur sem haldinn hefur verið, og er því kallaður BM86, og í þetta skiptið var hann haldinn í Genf í Sviss. ESU og landssamtök stúdenta í Sviss, VSS-UNES-USU, skipulögðu fundinn. Sjálfur fundurinn er yfir þrjá daga, en einnig eru málstofur, pallborðsumræður og fyrirlestrar haldnir í tvo daga fyrir fundinn.

ESU var stofnað árið 1982 sem regnhlífarsamtök landssamtaka stúdenta í flestum löndum Evrópu, og þau eru í forsvari fyrir 20 milljón stúdenta í Evrópu. Í framkvæmdarstjórn ESU situr forseti og tveir varaforsetar, og eru þau búsett í Brussel og vinna á skrifstofu ESU þar í borg. Að auki sitja sjö almennir fulltrúar í framkvæmdarstjórninni.

Fyrstu tvo dagana voru haldnar hinu ýmsu málstofur og pallborðumræður. Fyrri daginn var haldið til í Campus Biotech, en það er stofnun sem hýsir rannsóknarstofnanir og líftæknifyrirtæki. Þar var haldin opnunarathöfn, pallborðsumræður og málstofur um Erasmus+, fyrirlestur frá starfsmanni UNHCR (United Nations High Commissioner for Refugees) um aðgengi flóttafólks og hælisleitanda að háskólanámi, fyrirlestrar frá landssamtökum stúdenta sem var verið að endurmeta ásamt fleiri fyrirlestrum. Á degi tvö var staðsetningin Maison Internationale des Associations og þar var meðal annars fjallað um ráðherrafund um Bologna samstarfið sem haldinn verður í Albaníu í lok maí þar sem ráðherrar frá löndum Evrópu funda um málefni háskóla og æðri mentunnar. Einnig var farið létt yfir skjöl sem verða nánar skoðuð á fundardögunum sjálfum. Deginum var svo lokað með kappræðum frá frambjóðendum í kjöri til framkvæmdarsjórnar.

Á fundardögunum sjálfum var meðal annars farið yfir og samþykkt tvær stefnur sem ESU mun vinna eftir, en þær voru um málefni og aðgengi flóttamanna og hælisleitenda að háskólanámi og réttindi stúdenta. Einnig var farið yfir starfsáætlun ESU fyrir komandi starfsár, fjárhagsáætlun samtakanna, samþykktar ytri yfirlýsingar sem ESU mun senda frá sér og innra verklag sem samtökin munu taka sér fyrir hendur. Einnig var kosið í nýja framkvæmdarstjórn. Iris Kimizoglu var kosin sem forseti samtakanna og Arno Schrooyen og Lana Par voru kosin sem varaforsetar. Einnig var kosið sjö manns í framkvæmdarstjórn.

Previous
Previous

LÍS og Viska í samstarf

Next
Next

Skiptafundur LÍS