Umsögn LÍS og BHM um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna
BHM og Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS) furða sig á metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar eftir tveggja ára samráð um bætt námslánakerfi. Segja þau óbreytt styrkjakerfi auka ójöfnuð milli ungs fólks og eldri kynslóða sem nutu vaxtaniðurgreiðslu. Á sama tíma setja íslenskir námsmenn Evrópumet í atvinnuþátttöku.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í sameiginlegri umsögn LÍS og BHM vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Í ljósi langs aðdraganda, yfirgripsmikilla athugasemda frá hagaðilum og þeim vanköntum sem reifaðir eru í skýrslu ráðherra um endurskoðun á Menntasjóðnum furða BHM og LÍS sig á takmörkuðu umfangi þeirra aðgerða sem boðaðar eru í frumvarpinu. Ljóst er að tilefni er til mun viðameiri aðgerða og ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem framundan eru í kjarasamningum háskólamenntaðra á opinbera markaðnum. BHM og LÍS hvetja stjórnvöld til að stíga metnaðarfyllri skref til skamms tíma og stefna að endurskoðun á námslánakerfinu á breiðum grunni til lengri tíma. Skilvirkt námslánakerfi vinnur með markmiðum stjórnvalda um mannauðsdrifið hagkerfi til framtíðar.
Samtökin telja of skammt gengið í breytingu á styrkjafyrirkomulagi og benda á að núverandi styrkjakerfi hafi aukið ójafnræði og ójöfnuð milli kynslóðanna. Þá fagna BHM og LÍS þeirri löngu tímabæru aðgerð að afnema ábyrgðarmannakerfið að fullu. Aftur á móti gagnrýna samtökin harðlega breytingu á lögunum sem leiðir til að "ótryggir lántakar" muni ekki hafa aðgang að námslánakerfinu framvegis. Menntasjóðurinn er félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggja á tækifæri til náms án tillits til efnahagslegrar stöðu.