Landsþing LÍS 2025 haldið á Hvanneyri

Landsþing LÍS á Hvanneyri 2025

Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) fer fram dagana 3.–6. apríl 2025 á Hvanneyri. Þingið er stærsti samráðsvettvangur íslenskra stúdenta og æðsta ákvörðunarvald samtakanna, þar sem 39 þingfulltrúar, fulltrúaráð, framkvæmdastjórn og aðrir gestir koma saman til að móta stefnu og framtíðarsýn stúdentahreyfingarinnar.

Þema þingsins í ár er „Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins“ og verður lögð áhersla á samtal, samráð og stefnumótun um þau málefni sem brenna á háskólanemum. Dagskrá þingsins er fjölbreytt, þar sem boðið verður upp á vinnustofur, pallborðsumræður, erindi, stefnumótun, kosningar og félagslega viðburði.

Meðal gesta í ár verða Logi Einarsson, ráðherra háskólamála, María Rut Einarsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis og Páll Winkel nýr framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna. Þau munu taka höndum saman í pallborðsumræðum á föstudaginn, sem verður stýrt af Lísu Margréti Gunnarsdóttur, forseta LÍS.

Erlingur Sigvaldason og Natan Kolbeinsson úr hlaðvarpinu Á Öðrum bjór

Þeir Natan Kolbeinsson og Erlingur Sigvaldason úr hlaðvarpinu á Öðrum bjór verða svo með okkur alla helgina og taka viðtöl við fundargesti og þingfulltrúa.

Fundarhald hefst formlega föstudaginn 4. apríl í Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ), en þátttakendur hittast fyrst á Bifröst síðdegis daginn áður til undirbúnings og hópeflis. Gist verður í stúdentaíbúðum á Bifröst og LÍS sér um allan mat og ferðir á milli fundarstaðar og gistingar.

Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+. Aðgengi er tryggt fyrir alla og LÍS stendur straum af auknum aðgengisþörfum þátttakenda.

Við hlökkum til samverunnar og öflugrar þátttöku á Landsþingi LÍS 2025!

Dagskrá Landsþings LÍS á Hvanneyri 2025

Next
Next

AÐGERÐIR NÚNA: Vinnustofur um loftslagsaktivisma