Desemberþing LÍS

Lís héldu Desemberþing þann 17. dsember þar sem fulltrúar stúdenta ræddu við nýkjörna þingmenn sem öll voru virk í hagsmunabaráttu stúdenta áður en leið þeirra lá inn í landspólitíkina. Á meðal gesta voru Ingvar Þóroddson, þingmaður Viðreisnar og fyrrum Stúdentaráðsliði í Háskóla Íslands, Ragna Sigurðardóttir, fyrrum formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og þingmaður Samfylkingarinnar, og María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar, fyrrum formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og einn af stofnendum LÍS!

Frá vinstri: Ingvar Þóroddson (þingmaður Viðreisnar), María Rut Kristinsdóttir (þingmaður Viðreisnar), Ragna Sigurðardóttir (þingmaður Samfylkingarinnar) og Lísa Margrét Gunnarsdóttir (forseti LÍS)

Á þinginu gafst fulltrúaráði og gestum kostur á því að eiga í beinu samtali við hina nýju kynslóð Alþingis. Þingmennirnir ræddu meðal annars hvernig stúdentapólitíkin hefði nýst þeim á vegferð sinni inn í landspólitík, hvað hefði breyst og áorkast í málefnum stúdenta frá þeirra tíð í hagsmunabaráttu og hvaða málaflokkar þörfnuðust athygli í háskólasamfélaginu núna. Við þökkum Ingvari, Rögnu og Maríu kærlega fyrir komuna og hlökkum til áframhaldandi samtals og samstarfs á komandi kjörtímabili!

Gauti Skúlason, verkefnastjóri samskipta og markaðsmála hjá stéttarfélaginu Visku og Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, kynntu einnig nýja og spennandi stöðu kjarafulltrúa stúdenta á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs sem markar tímamót í hagsmunagæslu vinnandi stúdenta - en íslenskir stúdentar eiga einmitt Evrópumet í atvinnuþátttöku samhliða námi. Í því samhengi er einnig vert að nefna að þó að vinnandi stúdentar greiði í Atvinnutryggingasjóð eins og annað vinnandi fólk, hafa þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum einfaldlega vegna þess að þeir stunda háskólanám. Réttur stúdenta til atvinnuleysisbóta í námshléum var afturkallaður þann 1. janúar 2010, sem skýtur skökku við því við vinnum mest allra háskólanema í Evrópu og atvinnuþátttaka okkar vex milli ára samkvæmt könnun Eurostudent VIII. Við hvetjum stúdenta til að hafa samband við kjarafulltrúa SHÍ varðandi mál tengd kjörum og réttindum á vinnumarkaði og óskum réttindaskrifstofu Stúdentaráðs og Visku til hamingju með þessi tímamót í hagsmunagæslu stúdenta. Bestu þakkir fær Viska fyrir að hýsa Desemberþing LÍS og við þökkum öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna.

Previous
Previous

Annáll alþjóðafulltrúa 2024

Next
Next

Stúdentar á milli steins og sleggju