Annáll alþjóðafulltrúa 2024

LÍS leggur ríka áherslu á að vera í virkri samvinnu og samstarfi með stúdentahreyfingum víðsvegar í Evrópu, og samtökin okkar eru hluti af European Students’ Union, eða ESU. Það eru regnhlífarsamtök stúdentahreyfinga í Evrópu sem samanstanda af 44 stúdentafélögum frá 40 mismunandi löndum í Evrópu. LÍS sækir reglulega ráðstefnur og fundi á vegum ESU þar sem fulltrúar mæta á fundi, fyrirlestra, pallborðsumræður og tengslamyndunarviðburði.

Árið 2024 voru eftirfarandi ráðstefnur og fundir sóttir af fulltrúum LÍS.

Students emPower Education 2024 í Brussel, Belgíu 3. - 6. mars 

Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi LÍS, og Helga Guðrún, meðlimur alþjóðanefndar LÍS, sóttu ráðstefnuna. Ráðstefnan var skipulögð af VVS, sem eru Landssamtök nemenda í Flanders og eru í forsvari fyrir nemendur í flæmska hluta Belgíu, og ESU. Ráðstefnan var haldin í aðdraganda kosninga ESB sem fóru fram um sumarið. Á ráðstefnunni voru m.a. pallborðsumræður með stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum sem koma að æðri menntun auk kynningar á belgískum stjórnmálum og háskólakerfi.

47. European Student Convention í Köln, Þýskalandi 6. - 10. mars

Þau sem sóttu ráðstefnuna í Brussel gátu tekið tveggja tíma lest yfir landamærin til Þýskalands, en þar var 47. European Student’s Convention, eða ESC. Þar skipulögðu FZF, Landssamtök stúdenta í Þýskalandi, viðburðinn. Þemað á ráðstefnunni var Bologna-ferlið og kynntar voru niðurstöður úr Bologna With Student’s Eyes, en það er skýrsla sem ESU gefur út og snýst hún um hvernig aðildarfélög ESU líta á innleiðingu Bolognaferlisins í þeirra háskólasamfélagi. Einnig voru áframhaldandi umræður og kynningar á komandi kosningum í ESB.

84. fundur Landssamtaka stúdenta á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum (NOM) 25.-28. apríl

Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, mætti á 84. fund NOM í höfuðborginni Riga, en LSA, Landssamtök stúdenta í Lettlandi, sáu um skipulagningu og voru gestgjafar að þessu sinni. NOM, eða The Nordiskt Ordförande Møte, er samráðsvettvangur stúdenta á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, en þau síðarnefndu urðu hluti af NOM árið 2006. NOM þróaðist út frá fyrsta fundi sem stúdentahreyfingar á Norðurlöndunum héldu árið 1946. Þessir fundir eru mikilvægur vettvangur til þess að afla upplýsinga um málefni stúdenta í þessum löndum, og til þess að ræða og efla menntunarmál stúdenta. Þema þessa fundar var Jafnvægi vinnu og einkalífs í hagsmunabaráttu stúdenta.

86. Stjórnarfundur ESU í Geneva, Sviss 6. - 12. maí

Tvisvar á ári heldur ESU, í samstarfi við landssamtök stúdenta í viðkomandi landi, stjórnarfund (BM). Þar eru starf og stefna ESU mótuð af aðildarfélögum þess. Þessir fundir eru einnig mikilvægur vettvangur fyrir tengslamyndun og umræður milli allra aðildarfélaganna. Á stjórnarfundum sem haldnir eru að vori til eru einnig kosningar í framkvæmdastjórn ESU, en hún samanstendur af forseta, tveimur varaforsetum og 7 öðrum aðilum. Fyrstu tveir dagarnir samanstanda af mismunandi fundum, fyrirlestrum og pallborðsumræðum sem og undirbúningi fyrir stjórnarfundinn sjálfann, og næstu þrjá daga er þétt dagskrá fundarins. Fyrstu tvo dagana voru meðal annars pallborðsumræður um Evrópska háskólabandalagið (European University Alliance), kynning frá UNHCR um flóttafólk og háskólamenntun og hvað landssamtök stúdenta í geta gert til þess að auðvelda aðgengi flóttafólks að menntun í sínu heimalandi. Á fundinum sjálfum var mótuð starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESU, kosið í nýja stjórn og samþykkt mannréttindastefna ESU, stefna um réttindi stúdenta og stefna um málefni og aðgengi flóttafólks að háskólanámi. Á þessum fundi voru fulltrúar LÍS Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, Alexandra Ýr, forseti LÍS, og Sylvía Lind, meðlimur í alþjóðanefnd.

The North-Atlantic Islands’ Student Cooperation (NAIS) 17. - 19. maí

NAIS er nemendasamstarf og samráðsvettvangur fyrir nemendur Norður-Atlantshafseyja, og taka LÍS þátt ásamt MFS (Landssamtökum færeyskra stúdenta) og tveimur grænlenskum samtökum, þeim Ili Ili (Samtök stúdenta í Grænlandi) og AVALAK (Samtök grænlenskra nemenda í Danmörku). Að þessu sinni var NAIS haldið í Kaupmannahöfn og var staðsetning þess Grønlands Repræsentation, en í sömu byggingu er einnig íslenska og færeyska sendiráðið. NAIS samstarfið býr til vettvang til þess að ræða áskoranir og tækifæri sem nemendur á þessu svæði fást við. Ýmsir fundir og fyrirlestrar voru haldnir yfir þessa tvo daga, og útkoman var sameiginleg yfirlýsing þar sem hugmyndin á bak við NAIS og samstarfið endurbyggt og hlutverk þess meitlað. Fulltrúar LÍS voru Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, og Sylvía Lind, meðlimur í alþjóðanefnd sem býr í Kaupmannahöfn.

48. European Student Convention í Varsjá, Póllandi 19. - 22. september 

48. ESC var haldið í Varsjá og voru gestgjafarnir PSRP (Landssamtök stúdenta í Póllandi). Fulltrúi LÍS var Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi. Ýmsir fyrirlestrar og pallborðsumræður áttu sér stað, meðal annars um mat á fyrra námi, ritstuld og heilindi, stafræna væðingu æðri menntunar og áhrif gervigreindar. Einnig voru tengslamyndunarviðburðir haldnir, enda er mikilvægt að samtök kynnist öðrum samtökum og þeim áskorunum og tækifærum sem önnur samtök eru að fást við til að stuðla að fræðslu á jafningjagrundvelli.

85. fundur Landssamtaka stúdenta á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum (NOM) 2. - 6. október

Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, var fulltrúi LÍS á 85. NOM fundinum, sem haldinn var í Kaupmannahöfn. Gestgjafar og skipuleggjendur fundarins voru DSF, eða Landssamtök stúdenta í Danmörku. Þemað að þessu sinni var Activism, Advocacy and Politics in Higher Education. Þetta voru viðburðaríkir dagar í Kaupmannahöfn, en meðal annars var farið í Nordic Council, danska þingið í Kristjánsborgarhöll, háskóla- og vísindamálaráðuneytið og hinar ýmsu dönsku háskólastofnanir. Á hverjum stað voru umræður og fyrirlestrar frá hagaðilum og öðrum sem tengjast háskólamenntun með einhverjum hætti. Einnig fórum við á höfuðstöðvar DSF og fengum að heyra frá málum og áskorunum sem samtökin eru að vinna að og fást við. Á NOM fundum eru hver samtök með kynningu sem tengist þema fundarins og stöðu mála í heimalandi viðkomandi samtaka.

88. Stjórnarfundur ESU í Osló, Noregi 18. - 23. maí

Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, og Lilja Margrét, gæðastjóri LÍS, fóru á 88. stjórnarfund (BM) ESU sem haldinn var í Osló. NSO, Landssamtök stúdenta í Noregi voru gestgjafar og skipuleggjendur. Fyrstu tvo dagana var þemað lýðræði, og þessa fyrstu daga mættu þátttakendur á fyrirlestra, pallborðsumræður og fundi auk þess að taka þátt í umræðum áður en hinn eiginlegi stjórnarfundur hófst. Fyrsta daginn var haldið vítt og breitt um Osló á vinnustofur og fundi. Annan daginn var haldið til Úteyjar og deginum eytt þar. Þar var gengið um eyjuna með leiðsögumanni sem sagði okkur söguna af eyjunni og hryðjuverkunum sem framin voru þar þann 22. júlí 2011. Einnig voru vinnustofur og umræður um hatursorðræðu. Á stjórnarfundinum sjálfum, sem haldinn var næstu þrjá daga, voru meðal annars samþykktar stefnur um grunngildi og samstöðu og einnig sjálfbærni í æðri menntunarkerfum. LÍS lagði fram ályktun, ásamt öðrum samtökum, um aðgengi palestínskra stúdenta að æðri menntun og var hún samþykkt. Fulltrúar LÍS voru ánægðir með framvindu fundarins sem einkenndist af uppbyggilegum umræðum, lærdómi og tengslamyndun á milli jafningja.

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár fyrir alþjóðastarf LÍS, en fulltrúar sem fara út á vegum LÍS leggja ætíð mikla áherslu á virka þátttöku, umræður, tengslamyndun, að geta dregið lærdóm af kollegum okkar í öðrum samtökum vítt og breitt um Evrópu og að berjast fyrir réttindum stúdenta.



Next
Next

Stúdentar á milli steinns og sleggju