Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins

Stúdentar fjölmenntu á árlegt Landsþing LÍS í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri síðastliðna helgi, en vel yfir 50 þingfulltrúar frá öllum háskólum landsins og fulltrúar stúdenta í námi erlendis auk annarra góðra gesta sóttu þingið. Á líðandi starfsári hafa orðið miklar breytingar á háskólaumhverfinu, og á þinginu héldu LÍS pallborðsumræður með Loga Einarssyni háskólaráðherra, Maríu Rut Kristinsdóttur þingmanni Viðreisnar og stofnanda LÍS sem einnig var fundarstjóri þingsins, Silju Báru R. Ómarsdóttur nýkjörnum rektor Háskóla Íslands og Páli Winkel nýjum framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna. Yfirskrift þingsins í ár var Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins og ræddu þingfulltrúar og nýir valdhafar mikilvægi þess að tryggja aðkomu stúdenta að málefnum háskólasamfélagsins.

Frá vinstri: Páll Winkel, framkvæmdastjóri Menntasjóðs, Silja Bára R. Ómarsdóttir nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS.

Stefnumótunarvinna Landsþings

Á þinginu var gæðastefna yfirfarin í kjölfar nýrrar rammaáætlunar um gæði í íslenskum háskólum. Auk þess voru teknar fyrir lagabreytingar, störf framkvæmdastjórnar á árinu, drög að ársskýrslu og verkáætlun 2025 - 2026 kynnt. Á þinginu var yfirlýsing vegna mögulegrar sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst samþykkt einróma, auk ályktunar um gæði og aukið aðgengi að fjarnámi og ályktunar um aðkomu stúdenta að heildarendurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna. Þingfulltrúar sóttu skapandi vinnustofur og áttu málefnalegar og stefnumótandi umræður um málefni er varða stúdenta á landsvísu og í námi erlendis. 

Skapandi vinnustofa skipulögð af Lilju Margréti Óskarsdóttur, gæðastjóra LÍS.
Frá vinstri: Halldór Kjartan Þorsteinsson, hagsmunafulltrúi NFHB, Steinunn Thalia J. Claessen forseti SLHÍ og nýkjörinn varaforseti LÍS og Ástþór Ingi Runólfsson nefndarfulltrúi SFHR.

Framkvæmdastjórn 2025 - 2026

Á þinginu var kosið í framkvæmdastjórn samtakanna fyrir starfsárið 2025 - 2026. Hún tekur við þann 1. júní næstkomandi en þangað til starfar núverandi framkvæmdastjórn. Lísa Margrét Gunnarsdóttir hlaut endurkjör sem forseti, Steinunn Thalia J. Claessen var kjörin varaforseti, Þóra Margrét Karlsdóttir var kjörin alþjóðafulltrúi, Íris Björk Ágústsdóttir hlaut kjör sem jafnréttisfulltrúi og Lilja Margrét Óskarsdóttir var kjörin gæðastjóri.

Þakkir

Framkvæmdastjórn LÍS þakkar nýjum valdhöfum kærlega fyrir að leggja áherslu á öflugt samráð við stúdenta og þakkar Loga Einarssyni háskólaráðherra, Maríu Rut Kristinsdóttur þingmanni, Páli Winkel framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna og Silju Báru R. Ómarsdóttur nýkjörnum rektor HÍ kærlega fyrir erindi sín. María Rut Kristinsdóttir og Isabel Alejandra Díaz voru fundarstjórar þingsins og Embla Líf Hallsdóttir þingritari og fá þær einnig sérstakar þakkir fyrir frábæra fundarstjórn og -ritun. Þakkir fær einnig Hrafn Ingason, sérfræðingur Maskínu sem hélt erindi um Eurostudent 9 könnunina sem nú er að fara í loftið, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LBHÍ sem ávarpaði þingið, Eva Símonardóttir fyrir yfirumsjón með streymi og tæknimálum, Rósa Björk Jónsdóttir fyrir aðstoð við undirbúning, Stúdentafélag Landbúnaðarháskóla Íslands og Nemendafélag Háskólans á Bifröst fyrir ómetanlega aðstoð við uppsetningu og annað tilfallandi á meðan þinginu stóð og allt starfsfólk Landbúnaðarháskólans fyrir að taka vel á móti þingfulltrúum. Síðast en ekki síst eiga allir þingfulltrúar þakkir skilið fyrir málefnalegar umræður og þverpólitíska samstöðu! 

Next
Next

Streymi á Landsþing LÍS