LÍS, Q-félagið og ERGI lýsa yfir samstöðu með hinsegin stúdentum

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), Q–félag hinsegin stúdenta og ERGI – Félag hinsegin stúdenta á Norðurlandi hafa sameinast um stuðningsyfirlýsingu við hinsegin stúdenta. Í yfirlýsingunni fordæma samtökin orðræðu og aðgerðir sem grafa undan tilvist, sjálfsvirðingu og öryggi trans og kynsegin fólks á Íslandi.

Að sögn samtakanna hefur hinsegin fólk á Íslandi, og þá sérstaklega trans og kynsegin einstaklingar, orðið vitni að aukinni andstöðu í samfélagsumræðu á undanförnum misserum. Þessi þróun birtist meðal annars í ummælum stjórnmálafólks, neikvæðri og takmarkaðri fjölmiðlaumfjöllun og auknum árásum á rétt trans og kynsegin fólks til að vera sýnilegt og njóta öruggs aðgengis að almannarýmum og þjónustu.

„Slíkt á ekki heima í samfélagi sem kennir sig við mannréttindi, jafnrétti og velferð allra,“ segir í yfirlýsingunni.

Samtökin skora á háskóla, menntastofnanir og samfélagið allt að fordæma hatursorðræðu og fordóma, tryggja öruggt og aðgengilegt námsumhverfi fyrir öll, styðja við fræðslu og rannsóknir sem efla sýnileika og öryggi hinsegin stúdenta, og sýna skýra samstöðu með þeim sem standa veikt fyrir í opinberri umræðu.

„Fjölbreytileiki er styrkur hverrar þjóðar og það er hlutverk stúdenta og fræðafólks nú sem áður að standa vörð um upplýst og opið samfélag,“ segir í lok yfirlýsingarinnar sem undirrituð er af Lísu Margréti Gunnarsdóttur, forseta LÍS.

Lesa má stuðningsyfirlýsinguna í heild hér: STUÐNINGSYFIRLÝSING 15. SEPT. 2025

Next
Next

Árleg ráðstefna Gæðamats háskóla 2025 // IAQA annual conference 2025