74. stjórnarfundur ESU í Bled, Slóveníu

Dagana 22.-27. apríl sóttu fulltrúar LÍS 74. stjórnarfund European Students’ Union (ESU) í Bled, Slóveníu af SSU (Landssamtökum slóvenskra stúdenta).  Voru það Aldís Mjöll Geirsdóttir, Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og Salka Sigurðardóttir sem sóttu fundinn fyrir hönd LÍS.

Stjórnarfundir ESU eru haldnir tvisvar á ári og eru æðsta ákvörðunarvald samtakanna. Fundirnir samanstanda af tveggja daga undirbúningsráðstefnu og þriggja daga fundarsetu, þar sem ákvarðanir eru teknar um stefnur og verkefni ESU fram að næsta stjórnarfundi.

Undirbúningsráðstefna

Efnistök undirbúningsráðstefnunnar sem átti sér stað voru yfirgripsmikil og tókust á við hin ýmsu málefni stúdenta, ásamt því að þjóna sem undibúningur fyrir þau skjöl sem tekin voru fyrir á fundinum sjálfum. Meðal annars fengu ráðstefnugestir innsýn inn í líf og baráttu slóvenskra stúdenta. Þar á meðal má nefna að á síðasta ártug áttu sér stað kröftug mótmæli á vegum SSU sem enduðu með því að lagafrumvarp sem lagt hafi verið fyrir þing féll og ný lög, sem stúdentarnir sjálfir höfðu skrifað, gengu í gegn.

Fulltrúar LÍS sóttu einnig kynningu á svokölluðu Pink Training, sem er árleg fræðsluráðstefna sem Landssamtök stúdenta á Írlandi (USI) halda til fræðslu um hinsegin málefni. Þessi ráðstefna sér langa sögu, en USI byrjuðu að halda Pink Training fyrir rúmum þrjátíu árum. Ráðstefnan dregur að sér yfir 300 stúdenta sem sækjast í að læra meira um hinsegin málefni og er hún ein stærsta og elsta hinseginráðstefna í heiminum sem rekin er af stúdentum.

Fulltrúar LÍS, Elsa María, Aldís Mjöll og Salka

Fulltrúar LÍS, Elsa María, Aldís Mjöll og Salka

 

Stjórnarfundur

Yfirlýsingar

Stjórnarfundur ESU átti sér stað dagana 25.-27. apríl. Var dagskrá þétt setin og mörg mál tekin fyrir, því voru fundarhöld löng og ströng og oft setið fram eftir nóttu. Meðal annars var kosið um yfirlýsingu um framhald Erasmus+ verkefnisins en Erasmus+ mun líða undir lok árið 2020 og því kominn tími á að áætla hvað mun taka við. Hljóðaði yfirlýsingin meðal annars á um það að umsókn og allt ferli þurfi að einfalda og gera gagnsærra. Einnig þarf að gæta vel að aðgengi. Tryggja þarf meðal annars þess að þeir stúdentar sem þarfnast aukins fjárhagslegs stuðnings til að geta lagt stund á skiptinám eða starfsnám fái þann stuðning skilyrðislaust. Einnig var lögð áhersla á aukið fjármagn til Erasmus+ en ESU eru hluti af Erasmusx10 áskoruninni, sem krefst þess að fjárútlát til Erasmus verði tífölduð.

Kosið var um yfirlýsingu ESU fyrir ráðherrafund Bologna sem haldinn verður í París í maí. Bologna ferlið er samþykkt sem 48 lönd eru þátttakendur í, ferlið gengur út á það að samræma háskólakerfi þátttökulandanna með ákveðin grunngildi sem markmið. Með tveggja til þriggja ára millibili er haldinn svokallaður ráðherrafundur þar sem þátttökulöndin hittast og samþykkja stefnu komandi ára. Síðasti ráðherrafundur átti sér stað árið 2015 í Yerevan, Armeníu, og hefur samþykkt þess fundar verið í gildi síðastliðin þrjú ár. Í yfirlýsingu ESU sem kosin var í gegn á stjórnarfundinum má fyrst og fremst lesa um áherslur á félagslega vídd. Í síðustu samþykkt hafði verið talað um félagslega vídd og National Access Plans, sem eru sérstakar verkáætlanir til þess að tryggja jafnt aðgengi inn í háskólakerfið, en hefur sú áhersla fengið að lúta í lægra haldi í forgangsröðun þátttökulanda á þeim tíma sem hefur liðið síðan þá og því forgangsmál ESU að það gerist ekki aftur. Gríðarlega mikilvægt er að lögð sé aukin áhersla á félagslega vídd í komandi samþykkt Bologna, svo að tryggt sé að þátttökulöndin beiti sér fyrir alvöru í þeim málaflokki.

Yfirlýsing um mögulegt evrópskt háskólasvæði og framtíð háskólamenntunar í Evrópu var einnig samþykkt á fundinum. Fjallar yfirlýsingin fyrst og fremst um European Education Area, sem Evrópusambandið er að þreifa fyrir sér með að setja á laggirnar. Samkvæmt þeim kynningum sem ESU hefur fengið hingað til þá er hugmyndin sú að búa til samstarfsnet evrópskra háskóla. Óljóst er um nákvæma starfsemi þessa nets, en er það áherslumál ESU að þrátt fyrir að upphaflegar hugmyndir lúti að því að það verði eingöngu fyrir háskóla innan Evrópusambandsins að svo verði ekki. Heldur ætti netið að falla að Bologna ferlinu og þeim löndum sem eru hluti af því, það er að segja European Higher Education Area (EHEA). Þetta er í takt við það sem LÍS vilja að lögð sé áhersla á, enda mikilvægt að íslenskri háskólar sitji ekki eftir fyrir þann hlut einann að vera ekki innan Evrópusambandsins.

 

Stefnumál

Einnig var kosið um uppfærðar útgáfur af inngangi að stefnum ESU hvað varðar háskólakerfi og jafnréttisstefnu ESU. Uppfærsla hvors tveggja gekk mjög vel og mátti skynja einhug þeirra fulltrúa sem tóku þátt í umræðum um áherslumál og breytingar í þeim málum sem ESU beitir sér í og þá sérstaklega þegar kom að inngangi að stefnum ESU hvað varðar háskólakerfi. Þegar kom að þátttöku í uppfærslu jafnréttisstefnu samtakanna var þó marktækt dræmari þátttaka fulltrúa og vakti það athygli LÍS. Hafði misrétti kynja verið mikið í umræðunni á þeim dögum sem höfðu um garð gengið og þá þegar yfirlýsingar um þau málefni verið fluttar af öðrum landssamtökum. Ákváðu fulltrúar LÍS að láta sinn hlut ekki liggja eftir, heldur fluttu yfirlýsingu um skort á virðingu gangvart konum og þeirra innleggi í starfssemi ESU, sem og um skort á þátttöku í þeim hlutum af starfssemi ESU sem sérstaklega gengu út á jafnréttissmál.

Sagði yfirlýsingin meðal annars:


In order for us all to succeed as a collective, as an organisation that fights for inclusion, equality and respect, it is of paramount importance that we practice what we preach. We need to attend the gender session in order for it to deliver what it should. We need to not only all participate and contribute in amending the Gender Mainstreaming Strategy, we need to take it seriously and follow it through with conviction, willingness and ambition to improve.

 

Verkefnatillögur

Ásamt breytingum á stefnum og yfirlýsingum tók sér einnig stað liður í stjórnarfundinum þar sem farið er yfir tillögur aðildarfélaga að verkefnum eða verklagi sem ESU á að tileinka sér. Þessar tillögur ná yfir allt frá verkferli stjórnarfunda yfir í vinnuhópa sem ætlaðir eru til þess að vinna sérstaklega að ákveðnum verkefnum í tengslum við ESU. Lagði LÍS fram tillögu um að settur yrði á laggirnar vinnuhópur sem myndi endurskoða allt það ferli sem felst í því að finna samtök til þess að hýsa ráðstefnur ESU og hvernig ráðstefnurnar eru haldnar. Var þessi tillaga lögð fram í framhaldi af yfirlýsingu LÍS á síðasta stjórnarfundi ESU í Jerúsalem og vinnustofu sem LÍS héldu á ESC35 í Tallinn. Markmið hópsins mun vera að gera það ferli og þá vinnu sem felst í því að hýsa ráðstefnu aðgengilegri og auðveldari fyrir aðildarfélög ESU. Reyndin er sú að það hefur reynst sífellt erfiðara að halda ráðstefnur vegna fjármagns og umstangs og því óljóst hvernig mun fara með að finna komandi skipuleggjendur. Er það von LÍS að með þeirri vinnu sem mun fara fram í hópnum þá verði það eftirsóttara fyrir aðildarfélög að hýsa ráðstefnur og einnig auðveldara, með nýjum ramma og skýru ferli sem verður hægt að fylgja í undirbúningi.

Kosningar

Á stjórnarfundum ESU sem haldnir eru að vori eiga sér stað kosningar til nýrrar framkvæmdastjórnar samtakanna. Kosnir eru sjö meðlimir í framkvæmdastjórn, tveir varaforsetar og einn forseti.

Kjör hlutu:

Forseti: Adam Gajek

Varaforseti: Katrina Koppel

Varaforseti: Robert Napier

 

Framkvæmdastjórn:

Daniel Altman

Gohar Hovhannisyan

Monika Skadborg

Joao Martins

Sebastian Berger

Ursa Leban

Yulia Dobyshuk

Ný stjórn ESU

Ný stjórn ESU

 

Ný stjórn mun koma til með að taka við embættum við mánaðarmót júní og júlí í sumar. Lesa má frekar um niðurstöður kosningar hér.

Previous
Previous

Vilt þú vera með?

Next
Next

Staða íslenskra stúdenta í alþjóðlegum samanburði: aðgengi, efnahagur og tækifæri til náms erlendis