Landsþing LÍS 2019: Sjálfbærni og háskólasamfélagið - Hver er okkar samfélagslega ábyrgð?
Landsþing LÍS verður haldið að Háskólanum á Bifröst helgina 29.-31. mars. Yfirskrift þingsins verður að þessu sinni Sjálfbærni og háskólasamfélagið - Hver er okkar samfélagslega ábyrgð? Dagskrá þings verður í samræmi við yfirskrift og eiga sér stað fyrirlestra og vinnustofur um sjálfbærni og samfélagsábyrgð með áherslu á hlutverk háskólasamfélagsins og þá sérstaklega stúdenta.
Mætt verður til Bifrastar aðfarakvöld föstudags og þinghöld standa yfir frá föstudagsmorgni til eftirmiðdags sunnudags. Ásamt fyrirlestrum og vinnustofum fara einnig fram hefðbundin þingstörf, þ.á.m. verða breytingartillögur á lögum samtakanna bornar upp og ræddar sem og ný stefna samtakanna um jafnréttismál í íslensku háskólasamfélagi sem unnin er upp úr stefnumótunarvinnu landsþings 2018. Einnig verður farið yfir endurnýjaða stefnu um alþjóðavæðingu í íslensku háskólasamfélagi, en sú sem er í gildi í dag var samþykkt á landsþingi árið 2016.
Á landsþingi LÍS koma saman stúdentafulltrúar frá öllum háskólum landsins sem og frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Alls eru það um 60 einstaklingar sem taka þátt í þingstörfum og leggja sitt á vogarskálarnar við ákvarðanatöku og þróun á stefnumálum samtakanna. Landsþing LÍS er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi þar sem gefst færi á að skiptast á skoðunum, rökræða og fá innsýn í baráttumál stúdenta á öðrum vettvöngum sem og sækja styrk og stuðning.
Framboð til framkvæmdastjórnar
Framboðsfrestur til embætta framkvæmdastjórnar rann út föstudaginn 15. mars sl. Alls bárust átta framboð í fimm embætti:
Formaður:
Sonja Björg Jóhannsdóttir
Varaformaður:
Eygló María Björnsdóttir
Polina Diljá Helgadóttir
Sigrún Jónsdóttir
Alþjóðaforseti:
Jóhanna Ásgeirsdóttir
Fjármálastjóri:
Aníta Eir Jakobsdóttir
Jafnréttisfulltrúi:
Anastasía Jónsdóttir
Hrafn Sævarsson
Ekki bárust framboð í embætti ritara, gæðastjóra og markaðsstjóra. Opnað verður fyrir framboð í þau embætti að nýju á landsþingi. Kosið er í embætti á landsþingi.