Skrifaðu undir ákall fyrir bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu!

Landssamtök íslenskra stúdenta hafa opinberað herferð sína „Geðveikt álag“ og hrint af stað undirskriftarsöfun í tilefni þess. Samtökin krefjast þess að geðheilbrigðisþjónusta innan háskólakerfisins verði bætt til muna, úrræðum fjölgað og að minnsta kosti einu stöðugildi sálfræðings verði komið á innan hvers háskóla fyrir sig. Þú getur skrifað undir ákallið fyrir bættu aðgengi stúdenta að sálfræðiþjónustu á landsvísu hér.

Samkvæmt EUROSTUDENT VI könnuninni sem gerð var árið 2017 eiga tvöfalt fleiri íslenskir stúdentar við andleg veikindi að stríða en stúdentar á hinum Norðurlöndunum. 

Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld bregðist við og veiti háskólum landsins það fjármagn sem þeir þurfa til að halda úti öflugri geðheilbrigðisþjónustu í háskólakerfinu öllu. Þjónustu sem er óháð búsetu, efnahag og öðrum þáttum. Jafnframt er nauðsynlegt að háskólar á landsvísu bjóði stúdentum sínum upp á eins fjölbreytt úrræði og þeim er kostur á.

LÍS skora á alla rektora landsins að nálgast geðheilbrigðisþjónustu innan háskólakerfisins út frá heildrænni nálgun. Skapa þarf sameiginlega geðheilbrigðisstefnu þvert á alla skóla og vinna að því að tryggja aðgengi stúdenta að geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

Háskólar bera ábyrgð á því að líta á geðheilsu nemenda sinna sem forgangsverkefni og verða stöðugt að verja  tíma, orku og fjármunum í geðheilbrigðisþjónustu sem nær þvert yfir öll svið skólanna.

Tryggjum blómlegt nærumhverfi stúdenta þar sem heilsa og vellíðan þeirra er í forgrunni. Umhverfi sem gerir stúdentum kleift að vaxa og dafna, ekki bara lifa af!

gedveikt_alag_instagrampost_Alexander_uppfaert.jpg
Previous
Previous

LÍS fagna tillögu þingmanna Samfylkingarinnar um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta

Next
Next

Opið fyrir framboð til varaforseta LÍS // Open for applications for the Vice-President of LÍS