Sálfræðiþjónusta fellur undir sjúkratryggingar

Screen Shot 2020-07-03 at 16.08.47.png

Fyrr í vikunni eða 30. júní síðastliðinni var samþykkt á Alþingi breyting á lögum um sjúkratryggingar en frá og með 1. janúar 2021 mun nauðsynleg sálfræðiþjónusta og önnur gagnreynd samtalsmeðferð heilbrigðisstarfsmanna falla undir tryggingarnar.

LÍS telja þetta mikið fagnaðarefni enda er þetta stórt skref í rétta átt sem sýnir vilja stjórnvalda til að auka aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal stúdenta. Samtökin hafa á undanförnum misserum einblínt á úrræði er varðar geðheilbrigði stúdenta sem margir hverjir hafa ekki átt kost á að sækja sálfræðimeðferðir sökum hás kostnaðar. Þörfin fyrir slíka þjónustu sýnir sig bersýnilega í nýlegum könnunum á andlegri líðan stúdenta. Ákall LÍS og aðilarfélaga þeirra eftir bættri sálfræðiþjónustu innan háskólastofnanna hafa leitt til aukningar á ráðningum sálfræðinga til starfa á vegum einstakra háskóla en þó er enn stór hópur stúdenta sem skortir aðgang að slíkri þjónustu.

Þátttaka sjúkratrygginga í kostnaði sálfræðimeðferðar mun þannig vonandi brúa bilið fyrir þá stúdenta sem ekki enn hafa aðgang að skólasálfræðingi og verður hvati fyrir einstaklinga til að sækja sér sálfræðiaðstoðar sem þeir annars hefðu ekki efni á að nýta sér. Enn á þó eftir að koma í ljós hvernig lögin verða útfærð. Lagagreinin leggur áherslu á að sjúkratryggingastofnun geti krafist vottorðs frá lækni sem tilgreini nauðsyn meðferðar fyrir þá sem eftir henni sækjast og sömuleiðis mun ráðherra setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar en heimilt verður að setja nánari skilyrði til greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. 

Það er því von LÍS að útfærsla hinna nýju laga leiði til þess að sálfræðiþjónusta verði í raun aðgengilegri öllum, óháð efnahag og samfélagslegri stöðu einstaklinga.



Previous
Previous

Nýr framkvæmdastjóri ráðinn // New executive director hired

Next
Next

Auglýsum eftir fjölhæfum, skipulögðum excel snillingi í hlutverk framkvæmdastjóra // Looking for a multitalented, organized excel genius to be our new Executive Director