Samráðsfundur stjórnvalda: Að lifa með veirunni

Ad_lifa_med_veirunni1.png

LÍS var boðið að senda fulltrúa á samráðsfund stjórnvalda: Að lifa með veirunni. Fundurinn fór fram þann 20. ágúst 2020. Jóhanna Ásgeirsdóttir, forseti, sótti fundinn fyrir hönd samtakanna. Meðal annarra fundargesta voru fulltrúar samtaka hinna ýmsu hagsmuna hópa: atvinnulífsins, sveitarfélaga, heilbrigðiskerfisins og íþrótta- og menningarstofnanna.

Fundinum var streymt á vef stjórnarráðsins og hægt var að taka þátt í umræðu að heiman á rauntíma. Niðurstöður fundarins verða teknar saman og birtar í samráðsgátt stjórnvalda þar sem fólki gefst tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. 

Fundurinn hófst á örfyrirlestrum en síðan var gestum skipt í umræðuhópa eftir málaflokkum. Í umræðuhópnum um menntun sátu fulltrúar háskóla, framhaldskóla og Sambands íslenskra framhaldskólanema (SÍF).

Rædd voru áhrif sóttvarnaraðgerða á menntun fólks á Íslandi, áskoranir sem menntakerfið stendur frammi fyrir og hugsanlegar lausnir og mótvægisaðgerðir við þeim. Umræðuefnið var viðamikið og horft var bæði til skemmri og lengri tíma áhrifa, þ.e.a.s. hvernig skal koma önninni af stað en einnig hvað þarf að hafa í huga þegar líður á.

Þar ber að nefna nokkur atriði sem fleiri en einn í hópnum báru upp:

  • Viðvarandi sóttvarnarreglur munu hafa áhrif á félagslíf, líðan, og geðheilsu:

    • Við núverandi aðstæður getur skipulagt félagslíf ekki átt sér stað

    • Leita þarf leiða til þess að skapa félagslega nánd á öruggan hátt

    • Grípa þarf sérstaklega þá sem eru viðkvæmir fyrir og kæmu illa út úr félagslegri einangrun

  • Fjarnám og staðnám eru ólík

    • Þörf er á kennsluþróun fjarnáms

    • Staðnám má ekki víkja alfarið

    • Gæði náms fela einnig í sér samvinnu og samtal utan kennslustunda, án þessara samskipta rýrna gæði

  • Fjarnám skal vera aðgengilegur kostur

    • Þeir sem treysta sér ekki til þess að mæta skulu fá að stunda fjarnám

    • Útvega þarf örugga vinnuaðstöðu fyrir fólk í fjarnámi, ekki allir búa við aðstæður þar sem er hægt að stunda nám heima

    • Útvega þarf fjármagn til háskólanna fyrir tækjabúnaði sem þarf til að halda úti fjarkennslu

LÍS bentu sérstaklega á:

  • Stúdentar, eins og aðrir, glíma mörg við fjárhagserfiðleika á tímum veirunnar

    • Kannanir stúdentafélaga í vor og sumar leiddu í ljós að staða stúdenta á atvinnumarkaði væri mjög slæm

    • Það verður að styðja við stúdenta í því að standa straum af kostnaði þess að vera í námi, þar sem líklega margir hafa orðið fyrir tekjumissi í sumar og/eða eru atvinnulaus

    • Enn þarf að huga að atvinnumöguleikum og stuðningi fyrir stúdenta til að þau geti framfleytt sér og stundað nám

Leiðbeiningar um skólastarf á háskólastigi, sem birtar voru 19. ágúst, voru mörgum ofarlega í huga. 

Sérstakar tilslakanir eru þar teknar upp í þeim tilgangi að auðvelda skólastarfi: 

  • Í stað 2 metra nándarreglu gildir 1 metra regla innan háskóla án andlitsgríma.

  • Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni, s.s. í verklegri kennslu skal nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef.

  • Nemendur mega sækja vettvangsnám, starfsþjálfun eða heimsóknir á vinnustaði í tengslum við námið, enda sé þar farið eftir reglum um sóttvarnir.

Það er nú von að ekki þurfi að grípa til þess að loka skólum þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra reglu, vegna eðli kennslunnar eða húsnæðisins, en þess í stað verða gerðar varúðarráðstafanir til að tryggja að kennsla geti haldið áfram á sem öruggastan hátt.

En til viðbótar við þessar tilslakanir er kveðið á um sóttvarnarhólf, þ.e. að skipta þurfi nemendum, kennurum og öðru starfsfólki upp í að mesta lagi 100 manna hópa, milli hverra skuli vera enginn samgangur:     

Fjöldatakmörkun kveður á um að fleiri en 100 einstaklingar mega ekki koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Ef nemendur, kennarar og annað starfsfólk eru fleiri en 100 þarf að skipta skólanum upp í hólf og tryggja að enginn samgangur (blöndun) sé á milli hólfa. Auðvelt aðgengi að handþvottaaðstöðu og handspritti þarf að vera til staðar. Hvert skilgreint hólf þarf að vera greinilega aðskilið. Þau þurfa að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli hólfa. Salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert hólf.

Starfsfólk háskóla og stjórnendur sem tóku þátt í þessum umræðuhóp sögðu frá því að háskólarnir væri í miklum vandræðum með að skipuleggja skólastarf sem uppfyllir þessa kröfur. Ótal ástæður liggja að baki: nemendahópar geta verið mjög stórir og hver nemandi er með ólíka stundarskrá, val milli deilda verður nánast ómögulegt, húsakostur leyfir ekki alltaf skiptingu en helst skortir tíma og starfskrafti til þess að greiða úr þessarri skipulagsflækju.

Þessi gagnrýni og tillögur að lausnum komust til skila að til þríeykisins og ráðherra þegar borðastjórar greindu frá helstu niðurstöðum umræðnanna upp í pontu. 

Í pallborðsumræðu í lok dagskrár spurði Bergur Ebbi, fundarstjóri, Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hvernig hægt væri að koma til móts við mótsagnarkenndar kröfur um einfaldari sóttvarnarreglur sem samt taka betur tillit til einstakra aðstæðna. Hennar svar var að það skuli halda samtalinu áfram, þó að óvissan sé mikil þá er samráð helsti lykillinn að lausnum.

Við tökum undir þessi orð og beinum þeim að skólastjórnendum - meðan þau bíða eftir svörum um nákvæma tilhögun á sóttvarnarreglum frá yfirvöldum skal samt tryggja gagnsæi og aðkomu stúdenta. Samráð skal eiga sér stað við stúdenta um þeirra helstu áhyggjur þar sem þeirra mat á áhrifum faraldurins á menntun, líðan og lífskjör þeirra skiptir máli. Við hvetjum stúdenta til þess að leggja til máls um niðurstöður samráðsfundsins á samráðsgáttinnni, en einnig að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við stúdentafulltrúa og skólayfirvöld í sínum háskólum, eða beint til okkar í Landssamtökum íslenskra stúdenta.







Previous
Previous

Take Part! Join a committee in LÍS

Next
Next

Auglýsum eftir doktorsnema í undirnefnd Gæðaráðs íslenskra háskóla