Grípa þarf til frekari aðgerða fyrir stúdenta
Landssamtök íslenskra stúdenta sendu inn umsögn við frumvarp um frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru sem var til umræðu á alþingi í gær. Sjónarmið stúdenta komust þar að einhverju leiti inn í umræðu, að þörf er á því að staða stúdenta sé skoðuð nánar, að átt sé samráð við stúdenta og að gripið verði til aðgerða til þess að styðja stúdenta sem falla milli kerfa, þ.e. njóta hvorki réttar til atvinnuleysisbóta né námslána.
Helsta breytingin sem þetta frumvarp felur í sér er grunnur að átaki að nafni Nám er tækifæri, sem byggt er átakinu Nám er vinnandi vegur frá því í eftirmálum efnahagshrunsins 2008. Í núverandi mynd felur átakið í sér möguleika fyrir 3000 manns til þess að stunda nám án þess að missa rétt til atvinnuleysisbóta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. að hafa verið atvinnulausir í meira en 6 mánuði.
Ljóst er að einhverjum mun þykja misrétti fólgin í því að ákveðnir einstaklingar haldi rétt sínum til atvinnuleysisbóta samhliða því að hefja nám, meðan hinn almenni stúdent er alfarið án atvinnuleysistrygginga. Menntasjóður námsmanna á að jafna tækifæri fólks til náms og gera stúdentum kleift að sinna náminu sínu, en úthlutunarreglur sjóðsins gera beinlínis ráð fyrir því að námsmenn vinni með skóla og/eða í námshléum í útreikningum sínum á framfærslu. Stúdentar teljast ekki tryggðir í lögum um atvinnuleysistryggingar, en af því leiðir að atvinnulausir lánþegar þurfa að lifa á grunnframfærslu einni, sem er aðeins 166.859 krónur fyrir námsmann í sambúð, 189.500 krónur fyrir einstakling í leiguhúsnæði og 275.525 krónur fyrir einstætt foreldri með eitt barn svo nokkur dæmi séu nefnd.
Haldi ríkisstjórnin fast í þá afstöðu að stúdentar skulu áfram teljast ótryggðir í lögum um atvinnuleysisbætur þá leita stúdentar skýringar á því að ákveðnum hópi sé samt veittur þessi stuðningur. Viljum við hér ekki draga úr vanda þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en 6 mánuði, þennan hóp þarf að styðja, en viljum benda á að staða þeirra sem eru í námi er einnig mjög slæm, og að ef koma skal í veg fyrir að fólk neyðist til þess að hætta í námi vegna fjárhagsörðuleika þarf að grípa til frekari aðgerða.